Public deli
Public deli

Íþróttir

Grindavík átti fyrsta höggið og tók forystuna á móti Keflavík
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
þriðjudaginn 30. apríl 2024 kl. 21:52

Grindavík átti fyrsta höggið og tók forystuna á móti Keflavík

Grindavík og Keflavík hófu keppni í undanúrslitarimmu sinni í Subway-deild karla í kvöld á heimavelli Grindvíkinga í Smáranum í Kópavogi. Eftir hnífjafnan leik nánast allan tímann, voru Grindvíkingar sterkari á lokasprettinum og unnu sigur, 102-94.

Mikil dramatík var í leiknum, Remy Martin, fór meiddur af leikvelli í fyrri hálfleik eftir að hafa verið sjóðandi heitur og kominn með 18 stig á þeim tímapunkti. Fyrstu fregnir voru að Martin hefði slitið hásin en vonandi er það ekki rétt, sumir töluðu um trosnaða hásin en væntanlega nokkuð ljóst að hann verði ekki með í næsta leik.

Deandre Kane sem hefur oft verið á milli tannanna á körfuknattleiksfólki, bauð upp á hina stóru dramatíkina, hann fékk tæknivillu fyrir að reyna fiska ruðning og þótti dómurinn ansi harður, oft hafði blaðamaður séð dæmdan ruðning eða bara ekkert dæmt. Þar sem Kane hafði fengið ásetningsvillu fyrr í leiknum, var honum vísað út úr húsi. Aganefnd KKÍ þarf að úrskurða um bann, leikmaður fer ekki sjálfkrafa í bann fyrir þessar sakir, annað gildir með tvær ásetningsvillur eða tvær tæknivillur. Verður fróðlegt að sjá hvernig farið verður með mál Kane en ekki voru allir á eitt sáttir við bannið sem hann fékk eftir næstsíðasta leik í deildakeppninni, og þurfti að taka bannið út í öðrum leiknum í 8-liða úrslitum á móti Tindastóli.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Dedrick Basile var besti leikmaður Grindavíkur og endaði með 24 stig, 5 stoðsendingar og 5 fráköst. Á meðan Kane naut við var hann besti leikmaður Grindavíkur, var kominn með 24 stig og 7 fráköst.  

Fyrrnefndur Remy Martin var frábær á meðan hann var á vellinum, var kominn með 18 stig og réðu Grindvíkingar ekkert við hann. Keflvíkingar náðu vopnum sínum og misstu Grindvíkinga aldrei langt frá sér, aðrir einfaldlega tóku slakann en það dugði ekki til. Jaka Brodnik sem byrjaði rólega, var góður í seinni hálfleik og endaði með 16 stig. Danero Thomas var heitur fyrir utan þriggja stiga línuna, setti 4/7 slíkum skotum sínum og endaði með 12 stig, eins og Igor Maric en Marek Dolezaj endaði með 13 stig.

1-0 fyrir Grindavík og Keflvíkingar fá tækifæri á að jafna seríuna á heimavelli á laugardagskvöld.