600 manns byggja kísilver í Helguvík
– Árni Sigfússon fv. bæjarstjóri skrifar
Gert er ráð fyrir að hátt í 600 manns verði að störfum í haust vegna byggingar tveggja kísilvera í Helguvík. Þegar verksmiðjurnar verða báðar komnar í gang á miðju ári 2017 munu samtals um 260 manns starfa þar auk sjálfstæðra verktaka og þjónustuaðila. Meðal mánaðarlaun í þessum verksmiðjum eru rúmlega 600 þúsund kr.
Langur undirbúningstími
Í sjö ár, frá árinu 2008, hafa staðið yfir rannsóknir og undirbúningur uppbyggingar kísilvers í Helguvík. Frumkvöðull kísilverkefna í Helguvík er Magnús Garðarsson umhverfisverkfræðingur, sem nú stýrir United Silicon. Vinna hans var síður en svo þrautalaus. Í gegnum krepputíma á heimsmarkaði náði hann með þrautseigju að halda verkefninu á lífi, þrátt fyrir a.m.k. tvö stór bakslög 2009 og 2011, þegar stór samstarfsfyrirtæki heltust úr lestinni. Til þess að komast áfram þurfti Magnús stuðning okkar. Við sjálfstæðismenn létum ekki erfiða fjárhagsstöðu hafnarinnar eða seinkun á greiðslum vegna óvæntra tafa hindra þá möguleika að hér gæti risið öflug atvinnustarfsemi með vel launuð störf. Við náðum loks að brjótast í gegnum öldurót andstöðu og vonbrigða yfir á lygnari sjó og loks meðbyrs þessara verkefna. Úrtöluraddir og háð, sem náðu því miður eyrum of margra, eru nú hjóm eitt en eiga samt sem áður að vera okkur umhugsunarefni.
Ég mun sannarlega standa stoltur yfir því að loksins eru slík tímamót atvinnuverkefna að sigla inn í hafnarmynnið. Þar á Pétur Jóhannsson, fráfarandi hafnarstjóri, mikinn heiður skilið.
Kísilverin sem um ræðir heita United Silicon og Thorsil. United Silicon hyggst hefja framleiðslu í maí 2016 og Thorsil á miðju ári 2017. Ekkert er lengur til fyrirstöðu að lagning Suðurnesjalínu 2 geti hafist m.a. vegna þessara verkefna, þótt þar sé fyrst og fremst um öryggisatriði að ræða fyrir íbúa Suðurnesja.
United Silicon
Aðdragandi framkvæmda við fyrsta kísilverið var langur, eins og að framan greinir. En nú er allt komið á fulla ferð. Framkvæmdir fyrirtækisins United Silicon í Helguvík hófust í fyrra og munu starfa við þær um 200 manns á þessu ári og þar til verksmiðjan fer í gang næsta vor. Þá er gert ráð fyrir að 60 starfsmenn vinni í verksmiðjunni í fyrsta áfanga, auk starfsfólks verktaka og þjónustufyrirtækja.
Uppbygging fyrsta áfanga kostar um 12 milljarða kr. en þegar fjórir ofnar verða komnir í gagnið, sem stefnt er að, mun fjárfestingin nema 36 milljörðum kr.
United Silicon tryggði sér raforkusamning fyrir 35 MW fyrir fyrsta áfanga verkefnisins við Landsvirkjun í mars 2014. Í apríl 2014 undirritaði iðnaðaráðherra fjárfestingarsamning við United Silicon. Í júlí 2014 var síðan öllum fyrirvörum af orkusamningunum aflétt og skóflustunga tekin í ágúst 2014. Steypuvinna United Silicon er nú í fullum gangi og klárast í lok ársins. Gert er ráð fyrir að framleiðsla hefjist í verksmiðjunni strax í maí á næsta ári, 2016.
Thorsil
Nú eru liðin tvö ár frá því viðræður hófust við forsvarsmenn Thorsil um aðstöðu í Helguvík. Heildarfjárfestingar fyrirtækisins í Helguvík verða um 38 milljarðar króna en í verksmiðjunni á að framleiða allt að 54 þúsund tonn af kísilmálmi á ári
Árið 2013 staðfestu Reykjanesbær og Thorsil yfirlýsingu um að Reykjanesbær útvegaði Thorsil 160 þúsund fermetra lóð í Helguvík, undir kísilver. Í janúar 2014 gerði Thorsil samning við verkfræðistofuna Mannvit um verkfræðilega yfirstjórn byggingar álversins. Í apríl var lóðarsamningurinn staðfestur og í maí 2014 undirritaði iðnaðaráðherra fjárfestingarsamning við Thorsil. Nýlega var staðfest að forsvarsmenn Thorsil hafa samið um sölu 85% framleiðslunnar til tíu ára.
Forstjóri Landsvirkjunar hefur staðfest að hann vonist til að geta gengið frá raforkusamningi við Thorsil á næstu mánuðum. Thorsil hefur framkvæmdir nú í sumar og áætlar að við þær starfi hátt í 400 manns og 130 manns í sjálfri verksmiðjunni þegar hún fer í gang sumarið 2017, til viðbótar við sjálfstæða verktaka og þjónustuaðila.
Samfélagslega ábyrg fyrirtæki
Bæði þessi fyrirtæki sýna áhuga á að tengja menntun og þálfun væntanlegra 260 starfsmanna við heimafyrirtæki. Menntamiðstöðin okkar, Keilir, hefur þegar hafið undirbúning að slíku samstarfi, enda stofnuðum við Keili til að vera tengingu vísinda, fræða og atvinnulífs á svæðinu. Þá er mér kunnugt um að United Silicon er þegar að leggja mikið fé til stuðnings félagastarfsemi, sem oft hefur verið af skornum skammti frá mörgum stærstu fyrirtækjunum hér á svæðinu.
Kostir lóða í Helguvík
Það hefur verið fyrirtækjunum mikið aðdráttarafl að í Helguvík er allt skipulag fyrir hendi, hentugt byggingarland og umhverfissjónarmiða gætt. Lóðir á Helguvíkursvæðinu hafa marga kosti fyrir rekstur kísilmálmverksmiðja og aðra iðnaðarstarfsemi sem tengist flutningi á hráefnum og afurðum til og frá verksmiðjum um höfn. Vegna legu hafnarinnar og skipulags lóða, geta margar lóðir tengst hafnarbakka. Þá er staðsetning nærri stórum vinnumarkaði mikilvæg með nægu hæfu starfsfólki.
Undirbúningur er árangur
Full ástæða er fyrir íbúa Reykjanesbæjar og Suðurnesja að gleðjast yfir þessum áfangasigrum. Vel launuð og fjölbreytt störf eru sterk undirstaða fyrir samfélag okkar. Undirbúningur hefur verið mikilvægur. Við höfum þegar byggt upp sterkar menntastoðir, fallegt og menningarlegt samfélag. Atvinnutekjur munu greiða niður þungar búsifjar vegna tafa í framkvæmdum og óvæntra áfalla. Við þurfum öll að sameinast um framhaldið, kynna fyrir samlöndum okkar hið jákvæða og uppbyggjandi sem hér er, í stað hins öndverða. Við í núverandi minnihluta leggjum áherslu á að tala samfélagið „upp en ekki niður“ og væntum þess að undirbúningur síðasta áratugar skili samfélaginu okkar betri tekjum og lífskjörum þar sem unga fólkið okkar skarar fram úr og atvinnulífið blómstrar.
Árni Sigfússon,
fyrrverandi bæjarstjóri.
Samningar við Thorsil hafa gengið eftir og fyrirtækið hyggst hefja byggingarframkvæmdir í sumar með tæplega 400 starfsmönnum. Um 130 starfsmenn, auk verktaka, verða í verksmiðjunni þegar hún fer í gang sumarið 2017.