Aðsent

Að loknu prófkjöri
Miðvikudagur 11. mars 2009 kl. 18:46

Að loknu prófkjöri

Nú er prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi lokið. Prófkjör þar sem kosið var í fyrsta sinn á netinu. Væntanlega er það fyrirkomulagið sem koma skal.  Margir voru ánægðir með þetta fyrirkomulag á meðan öðrum var það til ama og einhverjir gátu ekki nýtt sér rétt sinn til þáttöku, má þar m.a. nefna sjómenn sem ekki eru nettengdir og voru á sjó 5. -7. mars. Kjörsókn hefði að ósekju mátt vera meiri. Hvort það var framkvæmdin eða almennt áhugaleysi á pólitík er erfitt að segja.  Það er hins vegar alveg ljóst að rof er milli þings og þjóðar. Það fann ég vel á ferðalagi mínu um kjördæmið, það tók á að finna vonleysi og vantrú almennings á stjórnmálamönnum og stjórnkerfinu almennt.

 Prófkjör er mikill skóli, lærdómsríkur, harður, ósanngjarn, skemmtilegur, krefjandi og gefandi. Skemmtilegast við prófkjör er að hitta ótal fjölda fólks, heyra skoðanir, kynnast kjördæminu og einstaka byggðarlögum. Skynja mismunandi mannlíf,menningu og áherslur. Það er líka með ólíkindum hversu margir eru tilbúnir að vinna með frambjóðendum, veita stuðninga og hjálpa til.  Fyrir það verður seint þakkað.

Öllum þeim sem studdu mig á einn eða annan hátt í prófkjörinu sendi ég mínar bestu þakkir.

Guðrún Erlingsdóttir
Höfundur náði 5. sæti  í
Prófkjöri Samfylkingarinnar
Í Suðurkjördæmi.