Áður en kosningabaráttan hefst
Þegar Vinstri hreyfingin - grænt framboð leggur af stað út í kosningastarf 2016 í Suðurkjördæmi liggur beint við að spyrja á hvað frambjóðendur, flestir ferskir í boði eins og ég, leggja áherslu. Heildarstefnan er í mótun hjá allri hreyfingunni og verður lögð fram eftir ráðstefnu á Akureyri um mánaðarmótin september - október. Áherslurnar í Suðurkjördæmi eru einnig að mótast og eiga auk þess eftir að slípast á komandi vikum. Kosningastarfið verður snarpt og stendur stutt.
Eflaust finna allir stjórnmálaflokkar meira eða minna sömu brýnu verkefnin að leysa; til dæmis í málefnum sem varða samgöngur, heilbrigðisþjónustu, menntamál, atvinnu og byggðaþróun, svo sumt sé nefnt. Á milli skilur lang oftast þegar kemur að lausnum. Bæði aðferðum við lausnir og leiðum til að finna fjármagn til lausnanna. Auðvelt er að trompa andstæðinga í pólitík með orðlögðum yfirborðum en erfiðara að raungera það sem þarf að gera þegar á reynir. Og viðmiðin eru oft ólík. Hverra hagsmunum viljum við þjóna? Þeirra sem afla síns viðurværis með eigin afli, þekkingu og hyggjuviti? Þeirra sem treysta á samfélagslega aðstoð vegna áfalla? Þeirra sem lifa af lágum launum og meðallaunum? Þeirra sem þrá betri lífsskilyrði og meiri menntun? Þeirra sem sjá sjálfbærar náttúrunytjar sem einan valkost til næstu áratuga? Þeirra sem skilja að fjölmenning er fólgin i byggð sem víðast á landinu og í sem opnustu samfélagi allra er vilja búa á Íslandi?
Þegar við sem skipum lista VG í víðáttumesta kjördæmi landsins hittum ykkur, íbúana, gildir að hlusta á orð um hvað á ykkur brennur, færa rök fyrir því sem við teljum rétt að gera í þeirra ljósi og minna á að ríkisstjórnir eru ávallt samsteypustjórnir og að stjórnarandstaða er nær ávallt lítt fær um að ná fram málum. Virkar fjöldahreyfingar, sem gætu breytt því, eru sjaldgæfar á Íslandi.
Við getum líka minnt á að stjórnmálahreyfing hefur heildræna sýn á samfélagið og heiminn langt fram í tímann en líka stefnu til eins eða tveggja kjörtímabila sem miðar að endurbótum á óréttlátu efnahagskerfi, daglegu lífi almennings og hnökróttu lýðræði. Ég ætla að vinna opið og heiðarlega að verkefnum sem mynda málefnaskrá og málefnalausnir VG í sem mestri samvinnu við jafnt liðsmenn hreyfingarinnar sem kjósendur, jafnvel aðra flokka ef unnt er. Ágreining, komi hann fram, linum við eða leysum best með aukinni þekkingu og málamiðlunum. Þannig þroskum við stjórnmálin.
Ari Trausti Guðmundsson
skipar 1. sæti á lista Vinstri grænna í Suðurkjördæmi