Athafnir í stað orða

Ég frábið mér slíka umræðu enda dæmir hún sig sjálf. Hugur okkar allra er hjá því fólki sem á nú um sárt að binda. Erfiðir tímar eru framundan og markmið okkar á að vera að finna lausnir til þess að tryggja hag þeirra sem nú missa sín störf. Leita á leiða til þess að aðstoða þá sem missa vinnu sína. Því þarf að leggja á borðið raunhæfar lausnir um trygga atvinnu til framtíðar. Slíkar lausnir koma ekki upp úr morgunverðarpökkum eða eru ákveðnar á nokkrum klukkutímum.
Komið hafa fram skyndilausnir og skýjaborgir, en hver er raunveruleikinn? Það er ekki búið að ákveða hvernig staðið verður að vörnum Íslands og Keflavíkurflugvöllur er ennþá skilgreindur sem varnarsvæði. Hver kemur til með að sjá um varnir landsins? Verða einhver störf áfram á varnarsvæðinu? Komum við til með að hafa aðgang að þeim mannvirkjum sem þar standa?
Svör við þessum spurningum þurfum við að fá sem fyrst, svo við getum farið að vinna að raunhæfum lausnum.
Með baráttukveðju
Arngrímur Guðmundsson