Aðsent

Fimmtudagur 26. október 2006 kl. 09:00

Baráttukonu í 3.sætið

Í prófkjöri Samfylkingarinnar 4.nóvember næstkomandi mun ég setja Jenný Þórkötlu Magnúsdóttir í 3.sæti.  Ég hef þekkt Jenný frá barnæsku og fer þar dugmikil og heiðarleg kona.  Hún hefur alla tíð haft hag og málefni þeirra sem minna mega sín, að leiðarljósi og barist fyrir réttindum þeirra.  Sést best á málefna áherslu hennar hvernig mann hún hefur að geyma.  Hennar megin áherslur eru tengdar hinum mannlega þætti, meðal annars málefnum fátækra, fatlaðra, geðfatlaðra, forvörnum í fíkniefnamálum og svo mætti áfram telja.  Kjósum konu á þing sem hefur þá þekkingu og  reynslu í þessum málaflokkum sem Jenný hefur.  Konu sem hefur metnað og þor til að taka þessum málum, sem ekki hafa verið fyrirferða mikil hjá þeirri ríkisstjórn sem nú er við völd.
Það eru fleiri málefni sem Jenný Þórkatla gjörþekkir og má þar nefna sjávarútvegsmál og málefni sjómanna, enda fer þar kona með “pungapróf” og sem er alin upp á sjómannsheimili.
Jenný hefur starfað að margvíslegum félagsmálum í gegnum tíðina svo sem, innan UMFN, Íþróttafélagsins Nes, verið formaður Ungra Jafnaðarmanna í Njarðvík og setið í fjölmörgum nefndum bæði í Njarðvík og í Reykjanesbæ. 
Eins og sjá má á þessari upptalningu, sem þó er ekki tæmandi, sést að þarna fer kona sem á fullt erindi inn á Alþingi og hef ég fulla trú á að þar muni hún starfa af krafti og heilhug.

Hvet ég alla Jafnaðarmenn til þess að fjölmenna í prófkjör Samfylkingarinnar þann 4.nóvember næstkomandi og veita Jenný Þórkötlu brautargengi í 3.sæti.

Ólafur Thordersen
Bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ