Aðsent

Birgitta Rún sækist eftir 5. sæti
Mánudagur 14. febrúar 2022 kl. 09:09

Birgitta Rún sækist eftir 5. sæti

Birgitta Rún Birgisdóttir býður sig fram í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar í Reykjanesbæ í vor. Prófkjörið fer fram þann 26. febrúar nk.

Ég hef verið svo lánsöm að fá að leggja nokkrum samfélagslegum verkefnum lið á undanförnum árum. Ég hef meðal annars setið sem aðalmaður í íþrótta- og tómstundaráði Reykjanesbæjar og sem varamaður í lýðheilsuráði og verið virk í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins í sveitarfélaginu. Það má segja að í þessu starfi hafi kviknað brennandi áhugi á að vinna að góðum málefnum fyrir nærsamfélagið mitt; fyrir börnin okkar og fyrir okkur öll.
Ég er 37 ára gömul og er fædd og uppalin í Reykjanesbæ. Ég er með B.Sc. gráðu í geislafræði og stunda nú meistaranám í forystu og stjórnun við viðskiptadeild Háskólans á Bifröst.

Ég er móðir tveggja drengja á grunnskólaaldri og hef fylgst náið með þeim vaxa og dafna í leik- og grunnskóla í sveitarfélaginu okkar og fylgt þeim eftir í tómstundastarfi. Ég hef sérstakan áhuga á því að hafa jákvæð áhrif á þennan þátt í starfi sveitarfélagsins, því lengi má gott bæta.
Undanfarin ár hef ég starfað við íþróttaþjálfun í Sporthúsinu í Reykjanesbæ. Ég hef meðal annars leikið stórt hlutverk í þjálfun í Superform og í spinning. Þá hef ég að auki sinnt hlaupa- og fjarþjálfun. Samhliða þessum störfum hef ég sótt mér menntun og námskeið á sviði einkaþjálfunar og næringar. Sjálf hef ég stundað íþróttir af krafti frá unga aldri og meðal annars keppt fyrir Íslands hönd í sundi. Lýðheilsa, hreyfing og vellíðan íbúa á öllum aldri er annað málefni sem ég brenn fyrir. Ég tel mig hafa mikið fram að færa í þágu heilsu og vellíðunar íbúa bæjarins.

Ég hef mikinn áhuga á að láta til mín taka í öðrum málefnum fjölskyldna á svæðinu. Ég hef menntun og reynslu úr heilbrigðisgeiranum og sem móðir skil ég vel nauðsyn þess að hafa öfluga heilbrigðisþjónustu, sem veitt er á breiðum grunni, hér í heimabyggð. Ég vil leggja lóð mínar á vogarskálarnar með því að taka þátt í að þrýsta á stjórnvöld að gera mun betur í þessum málaflokki.
Ég hef notið þess að eiga góð og uppbyggileg samtöl í nærumhverfi mínu um öll þessi málefni og fleiri til, en núna vil ég eiga samtöl við ykkur öll! Mig langar til þess að heyra frá ykkur og eiga við ykkur samtal um það hvað megi betur fara í frábæra bænum okkar.
Þá vonast ég til þess að eiga stuðning ykkar inni þegar gengið verður til prófkjörs síðar í mánuðinum.

Áfram Reykjanesbær!
Birgitta Rún Birgisdóttir