Bjallan hringir, bjallan hringir

Leikskólabörn eru flest keyrð í skólann og því verður oft mikil umferð við leikskólana snemma morguns og síðdegis. Fara þarf varlega því lítil börn eru snögg og sjást ekki alltaf þegar þau skjótast á milli bíla. Þegar barn byrjar í grunnakóla ætti þessi akstur að minnka. Flest börn búa það nálægt sínum hverfisskóla að þau geta gengið í og úr skóla. Öll börn hafa gott af hreyfingunni og útiverunni. Væri ekki upplagt fyrir alla fjölskylduna að fá sér göngutúr um helgina, finna bestu og öruggustu leiðina í skólann og kenna eða rifja upp umferðareglurnar í leiðinni. Fyrir þau börn sem ekki búa í göngufæri við skólann er upplagt að nýta strætisvagninn. Það er líka gott fyrir foreldra að fara með börnunum ferð með strætisvagninum, sýna þeim hvar best er að bíða og fara út úr vagninum og síðast en ekki síst hvernig maður hegðar sér í almenningsfarartæki. Það er mjög mikilvægt að allir bæjarbúar taki þátt í þessu verkefni og leggi sitt af mörkum.
Stöndum saman, sýnum tillitsemi og reynum að minnka bílaumferð við alla skóla. Þannig verða börnin okkar öruggari.
Guðbjörg M. Sveinsdóttir,
staðgengill fræðslustjóra.