Aðsent

Enn tekist á um fartölvu í Garðinum
Fimmtudagur 7. september 2006 kl. 10:49

Enn tekist á um fartölvu í Garðinum

Fartölvumálið í Garði virðis engan enda ætla að taka. Málið kom aftur upp á fundi bæjarstjórnar Garðs í gærdag þegar fundargerð bæjarráðs frá 41. fundi var lögð fram.
Ingimundur Þ. Guðnason, bæjarfulltrúi F-listans, gerir það að tillögu sinni að svar bæjarstjórnar til Sigurðar varðandi kaup á tölvu verði endurskoðað og að bæjarstjóra verði falið að ganga til samninga við Sigurð um þetta mál.

Bókaði Ingimundur eftirfarandi um málið:
„Ég vil lýsa yfir óánægju minni yfir afstöðu meirihlutans í þessu máli og óvinsamlegri framkomu hans við Sigurð Jónsson sem starfað hefur í æðsta embætti sveitarfélagsins samfellt í 16 ár.“

Bókun N-listans í málinu var eftirfarandi:
„Ákvörðun N-lista um að verða ekki við beiðni Sigurðar um að kaupa tölvu í eigu bæjarins sem hann hafði haft til afnota frá því í janúar á þessu ári, byggðist á því mati að það væri góð vinnuregla að starfsmenn bæjarins skiluðu tækjum sem þeir hafa til afnota þegar þeir láta af störfum. Einnig hefði endurnýjun haft kostnað í för með sér fyrir sveitarfélagið.  Almennt tíðkast að starfsmenn fyrirtækja og stofnanna skili tölvum sem þeir hafa haft til afnota þegar þeir láta af störfum. Ákvörðun N-lista í þessu máli bar ekki með sér dulin skilaboð um hug N-listamanna til Sigurðar heldur var einungis litið til almennra vinnureglna og hagkæmissjónarmiða.

N-listi vonar að Sigurði og Ástu konu hans vegni vel á nýjum stað í nýjum störfum.“

Fundargerðin var að endingu samþykkt samhljóða.