Fimmtudagur 16. maí 2002 kl. 00:12
Enn um samverusvæði - af gefnu tilefni

Ingi Gunnarsson, sér ástæðu til þess að gera athugasemd við grein mína um samverusvæði sem birtist í síðasta tölublaði Víkurfrétta. Það eru nokkur atriði í greininni sem ég vil gera athugasemdir við. Ingi fullyrðir í grein sinni að ég hafi ekki kynnt mér málefni Njarðvíkur og Hafna og að ég líti greinilega ekki á mig sem fulltrúa þessara hluta Reykjanesbæjar, sem er bara rangt.Ég viðurkenndi eins og rétt var að ég þekkti ekki til svæða í Njarðvíkurhverfi sem hentað gætu sem samverusvæði. Á því er munur. Ástæða greinar minnar að kynna hugmyndina um samverusvæði sem er eitt áhersluatriða í stefnuskrá Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ. Ég er hrifinn af hugmyndinni og nefndi dæmi sem ég þekkti. Mér datt ekki í hug þegar ég skrifaði greinina að hafa samband við einhverja sem bjuggu í þessum bæjarhlutum, eingöngu til þess að geta bent á eitthvert moldarbarð, vegna þess að ég var ekki að kynna svæðin heldur hugmyndina um þau. Ég hef engan áhuga á að starfa eins og sá sem allt veit og allt getur. Ég er hins vegar tilbúinn að fylgja góðum hugmyndum eftir, með góðra manna hjálp og þigg því boð Inga Gunnarssonar með þökkum.
Guðbrandur Einarsson
skipar 3. sæti á lista
Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ