Er fulltrúi fólksins alls

Björgvin G. Sigurðsson, alþingismaður, fór með sigur af hólmi í prófkjöri samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi um síðustu helgi. Víkurfréttir tóku nýjan leiðtoga Samfylkingarinnar í kjördæminu tali að afloknu prófkjörinu.
Hverju þakkar þú þennan góða árangur í prófkjöri Samfylkingarinnar?
„Árangurinn þakka ég mörgu og mörgum. Fyrst og fremst fólkinu sem studdi mig með með miklum krafti. Hinsvegar eru kjósendur að taka afstöðu til framgöngu okkar á pólitíska sviðinu. Ég lagði alltaf ríka áherslu á að ég er fulltrúi Suðurkjördæmis alls. Ekki einstakra svæða eða póstnúmera. Það er verið að velja sterkasta listann. Ekki á milli búsetusvæða og póstnúmera. Ég bý t.d. og hef alla ævi gert í einu fámennasta sveitarfélagi í kjördæminu, Gnúpverja- og Skeiðahreppi, en vinn afgerandi sigur 1. sætið í prófkjörinu. Fyrir það traust er ég afar þakklátur og mun leggja mig allan fram um að standa undir því. Hvort sem er fyrir Suðurnesin, Vestmannaeyjar eða önnur svæði í kjördæminu. Ég er fulltrúi fólksins alls.“
Nú er ljóst að Suðurnesjamenn fara illa út úr prófkjörinu og það er alveg ljóst að þeir hafa ekki "sinn" málsvara í Samfylkingunni, þ.e. heimamenn á Suðurnesjum eiga ekki menn í efstu sætum. Kanntu skýringar á þessu?
„Nei, og það er sárt að sjá á bak Jóni Gunnarssyni alþingismanni. Hann er afbragðs þingmaður og góður drengur í hvívetna. Í prófkjörinu bar aldrei skugga á samstarf okkar. Við erum góðir vinir og honum þakka ég drengilega keppni sem og öðrum þátttakendum í prófkjörinu. Hann átti betra skilið en dómurinn er fallinn og ekkert við því að segja. Ég virði ákvörðun hans um að hætta en hefði viljað hafa hann áfram. Það er eftirsjá í honum en hann hefur tekið sína ákvörðun og hana virði ég.
Við erum öll fulltrúar Suðurnesja. Róbert Marshall t.d. er starfandi í Samfylkingarfélaginu í Reykjanesbæ. Lúðvík nýtur trausts og hylli hér. Hefur unnið af kappi fyrir svæðið um árabil. Sjálfur legg ég sama kapp á málefni Suðurnesja og annarra staða í Suðurkjördæmi og margir studdu mig í 1. sæti af því svæði. Við munum öll kappkosta að vinna traust og hylli fólksins á Suðurnesjum sem og annarstaðar í kjördæminu. Þetta snýst um að vinna fyrir fólkið. Ekki í hvaða póstnúmeri maður býr.“
Suðurnes eru um 45% af kjördæminu. Er ekki óeðlilegt að þaðan komi ekki fulltrúi á sama tíma og þrír Eyjamenn eru í framvarðarsveit kjördæmisins?
„Auðvitað er ákjósanlegt að hafa fullkomið jafnvægi á öllu. Slíkt er gert í uppstillingum. Prófkjör eru þannig að niðurstöðum stjórnar maður ekki. Við vinnum vel út úr því og einsog ég sagði; þetta snýst um gott og kraftmikið fólk. Ekki hvort við ólumst upp í Eyjum eða annarsstaðar í kjördæminu. Við erum öll Suðurnesjamenn í þeim skilningi. Við erum fulltrúar svæðisins alls.“
Hér á Suðurnesjum skynjum við óánægju með stöðu mála eftir helgina. Tekst ykkur að lægja öldurnar fyrir vorið og halda ykkar hlut eða bæta í?
„Já, það munum við gera með góðri vinnu. Verkefni okkar er að sýna það og sanna að við erum sigursveit fyrir Suðurkjördæmi allt. Ekki einstaka staði innan þess. Allt kjördæmið er okkar völlur. Við munum gæta hagsmuna Suðurnesja sérstaklega og einbeita okkur að því verkefni.“
Hver verða næstu skref hjá ykkur sem leiðið Samfylkinguna í kjördæminu?
„Nú er það stóri slagurinn um að vinna meirihluta á Alþingi Íslendinga. Við berjum fyrir jöfnuði og frjálslyndum viðhorfum í stjórnmálum. Það er kominn tími á ríkisstjórn jafnaðarmanna og við munum einbeita okkur að því að vinna sigur í vor. Það er stóra verkefnið.“