Forfæringar á peningum

Allslaus og ánægð?
Við erum búin að selja ofan af okkur allar okkar helstu eignir. Stór hluti arðsins átti að fara í að borga upp skuldir eða allt að 2 milljarðar, en viti menn, einungis voru skuldir greiddar niður fyrir tæplega 800 milljónir sem segir okkur það að skapast hefur skringilegt svigrúm til að eyða peningunum sem átti að nota til að grynnka á skuldastöðu bæjarfélagsins. Reykjanesbær er búinn að eyða þessum aurum meðal annars í fegrun bæjarins sem öllum ber saman um að sé af hinu góða. En að sjálfsögðu hefðum við átt að greiða upp skuldir okkar eins og samið var um og framkvæma yfir lengri tíma eins og flestir geta og hafa gert með góðu skipulagi.
Húsið selt til að fegra garðinn
Ofangreindu má líkja við það að fjölskylda myndi selja húsið sitt til að leigja það á
,,okurlánum” til að geta fegrað garðinn sinn. Það er alveg sama hvernig ég lít á þetta skringilega mál, ég get ómögulega fengið það til að virka okkur í hag. Ég hvet fólk til að fara inn á heimasíðu A–listans, xa.is og kynna sér, í þar til gerðri reiknivél hvað það myndi kosta ykkur að leigja eignina ,,ykkar” ef þið mynduð selja hana eignarhaldsfélaginu Fasteign.
Ytri og innri lífsgildi
Hverju sækist fólk eftir, jú það vill að sjálfsögðu hafa jafnvægi í ytri og innri lífsgildum sem hvoru tveggja snúa að fjölskyldu og vonandi metnaði fyrir eigin bæjarfélagi. Með ytri lífsgildum á ég við bætta aðstöðu og fegrun bæjarfélagsins. Með innri lífsgildum er átt við hversu vel bæjarfélagið styður við fjölskyldur og einstaklinga samfélagslega. Það verður ekki tekið af Sjálfstæðismönnum að þeir hafa nært ytri lífsgildin svo um munar á þessu kjörtímabili, þeir hafa hins vegar alls ekki staðið sig í að glæða innri lífsgildin lífi og þar ætlum við að taka við. Við erum með skotheldar tillögur um fjármögnun á þeim málefnum sem við setjum á oddinn, sem eru vel flest samfélagsleg og til þess gerð að jafna möguleika allra á þátttöku í þeirri þjónustu sem bæjarfélagið veitir.
Kæru bæjarbúar, tökum höndum saman, lítum okkur nær og veltum því fyrir okkur hvað við virkilega viljum fá út úr ábyrgri stjórnun bæjarfélagsins.
Eðvarð Þór Eðvarðsson frambjóðandi A–listans