Fyrir fólkið í bænum!
– Anna Lóa Ólafsdóttir skrifar
Kjörorð Beinnar leiðar er ,,Fyrir fólkið í bænum“ því við viljum leggja áherslu á þjónustu við íbúa, velferð þeirra og möguleika til þátttöku í daglegu lífi, þar sem flestir fái notið sín á eigin forsendum. Við tölum gjarnan um mannauð samfélagsins - já sérstaklega á tyllidögum en það má ekki gleymast að mannauðurinn erum við öll og þegar rýnt er í orðið þá er verið að vísa í hugvit, þekkingu og reynslu hvers og eins. Til þess að hver og einn íbúi fái notið sín þarf tilfinningin að vera að þú sem einstaklingur fáir tækifæri til að nýta annaðhvort hugvit, þekkingu eða reynslu sjálfum þér og samfélaginu til heilla.
Atvinna er svarið við svo mörgu og með auknu atvinnuleysi undanfarinna ára hefur reynt á mannauðinn. Ég hef heyrt því fleygt að við hjá Beinni leið séum ekki með neinar lausnir þegar það kemur að þessu stóra máli - atvinnu. Bærinn á að búa svo um hnútana að hingað vilji fyrirtæki koma með þjónustu sína eða verkefni en það þarf líka að sjá til þess að hingað vilji FÓLK flytja - mannauðurinn. Við verðum að snúa vörn í sókn og kynna svæðið okkar á þann hátt að fólk horfi hingað jákvæðum augum en maður fái ekki spurninguna ,,hvenær ætlar þú að flytja til Reykjavíkur“. Ég geri mér vel grein fyrir því að skoðanir fólks eru oftar en ekki byggðar á neikvæðri umfjöllun fjölmiðla sem á sér ekki stoð í raunveruleikanum en við þurfum líka að vera meðvituð um hvað það er sem er gott við svæðið, af hverju við viljum búa hér og hvers vegna aðrir ættu að vilja flytja hingað.
Tími auglýsingabrella, fagurgala og innantómra loforða er liðinn. Fólkið sem hér býr verður að taka höndum saman og ákveða í sameiningu að við þurfum að breyta sýn fólks á svæðinu og það gera ekki 11 bæjarfulltrúar (hvað þá færri) - það gerum við öll. Sumum þykir nóg um allt þetta tal um samvinnu og samstarf en satt best að segja skelfist ég þá hugsanavillu að einhver ákveðinn hópur sé best til þess fallinn að hafa vit fyrir okkur öllum. Við höfum margoft ákveðið í gegnum íslenska sögu að tími valdakerfa væri liðinn og til að lýðræðið muni í raun virka séum við í sameiningu að ákveða hvað er okkur fyrir bestu. Var það ekki hugmyndin að baki NÝJA ÍSLANDI - hvað varð um þá sýn!!
Ég fæ allskonar viðbrögð frá fólki eftir að ég ákvað að skipta mér aðeins af hlutunum og bjóða mig fram í sveitarstjórnarkosningunum og merkilegast finnst mér þegar ég finn fyrir því að viðhorfið er: hvað vilt þú upp á dekk!! Mér finnst það hreint með ólíkindum að árið 2014 séum við enn upptekin af ákveðnum flokkum en einstaklingar sem vilja láta gott af sér leiða í bæjarfélaginu, eru minna virði. Ég tala ekki pólitísku en ég tala íslensku. Ég ætla ekki að koma hér með allskonar loforð til að heilla ykkur upp úr skónum og telja ykkur trú um að ég búi yfir einhverri snilligáfu sem engin annar á Suðurnesjum búi yfir sem uppfylli allar ykkar óskir. Vitið þið, mér dettur það ekki til hugar því virðing mín fyrir ykkur er meiri en það.
En ég vil breytingar! Staðreyndin er sú að við erum eitt skuldsettasta bæjarfélag landsins og þeirri þróun verður að snúa við. Við búum á svæði sem hefur átt við erfiðleika að stríða undanfarin ár og hér þurfum við að leita nýrra leiða til að hvetja íbúana áfram til að skoða nýja möguleika þegar atvinna er annars vegar. Þeir sem bjóða sig fram fyrir hönd bæjarins þurfa að vera sú hvatning. Við þurfum að halda áfram að hækka menntunarstigið og horfa fram á veginn og hvað sem verður í Helguvík þá er varhugavert að lofa fjöldanum öllum af verkefnum þar á fjögurra ára fresti - en ég þarf auðvitað ekki að taka það fram að núna er þetta allt að skella á. Það er afar mikilvægt að íbúar fái að vera með í ákvarðanatöku varðandi Helguvík og hvort hugmyndir um lífalkóhól- og glýkólverksmiðju, kísilverksmiðju eða álver, sé eitthvað sem hugnist þeim og hvernig yrði staðið að umhverfismálum varðandi þessi verkefni. Ég blæs á þær raddir sem segja að Bein leið sé á móti atvinnuuppbygginu - þvílík fásinna sem það væri. Grunnforsenda hvers byggðarlags er atvinnulíf sem stendur traustum fótum. Breyttir atvinnuhættir síðustu áratuga kalla á nýjar leiðir til að styrkja grunnstoðir atvinnulífsins á svæðinu og því verður að fara fram endurskoðun atvinnustefnu Reykjanesbæjar í samráði við íbúa.
Við í Beinni leið erum meðvituð um þetta og viljum með ykkar aðstoð auka lífsgæði sem flestra og sú sem þetta skrifar mun ekki láta sitt eftir liggja. Ég tel mig vera að fylgja eftir því sem ég hef verið að gera s.l ár en ég hef markvisst talað svæðið upp og bent á það sem er jákvætt og dreift ,,hamingju“ við hvert tækifæri. Einhverjir hrista hausinn yfir þessu og telja þetta eflaust ekki til þeirra mála sem séu efst á baugi. Í mínum huga skiptir þetta öllu máli, að innri og ytri vellíðan okkar allra kallist á.
Fái ég tækifæri til að spreyta mig í þágu Reykjanesbæjar þá lít ég á þetta eins og önnur störf sem ég hef sinnt; hlýt að þurfa læra helling en með dugnaði og þrautseigju get ég þetta eins og annað sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Móðir mín heitin gaf mér ráð sem ég reyni alla jafnan að fara eftir; Anna Lóa, segðu minna og gerðu meira - láttu verkin þín tala.
Það er ekki eftir neinu að bíða. Það er kominn tími á breytingar !!
Anna Lóa Ólafsdóttir
í framboði fyrir Beina leið