„Fyrirgefning syndanna“
Eftir að hafa lesið svar bæjarstjóra Rnb. við pistli mínum sem birtur var í 7tbl. Víkurfrétta „Special price for you my friend" (sjá hér á bls.11: http://issuu.com/vikurfrettir/docs/7.tbl.2013 ) verð ég að viðurkenna að ég varð kjaftstopp í langan tíma á eftir. Ég mátti svo sem gera ráð fyrir ýmsu í svarpistli hans en engan veginn átti ég von á því að hann myndi leggja mér orð í munn sem ég aldrei viðhafði og svo í framhaldi veita mér fyrirgefningu á þeim.
Hvergi líki ég honum við drykkfeldan einstakling í grein minni og er sammála honum í því að slíkt væri bæði alvarlegt og fáránlegt að halda fram. Ég leyfi mér þó að halda því fram að slæm lestrarkunnátta hljóti að plaga hann þ.e. einnig virðist hann lesa út úr grein minni að ég sé innvígður Samfylgingarmaður þó svo að ég komi því skírt á framfæri að ég telji flokkapólitík löngu úrelt fyrirbæri sem hafi runnið sitt skeið á enda fyrir löngu.
Bæjarstjóri kýs að stilla sér upp sem fórnarlambi og dreifa þannig athyglinni frá því sem skiptir höfuðmáli í grein minni, kannski vegna þess að sannleikanum er hver sárreiðastur. Mér finnst rétt að benda honum á að hann sem og aðrir sem fara með stjórnsýslu bæjarins eru í vinnu hjá bæjarbúum en ekki öfugt og ber að fara með fjármuni bæjarbúa á ábyrgan hátt með hagsmuni þeirra að leiðarljósi. Reykjanesbær er ekki einkafyrirtæki flokksbræðra þinna þar sem sólunda má fjármunum í misvitur ævintýri sem einungis auka skuldabyrði bæjarbúa.
Ég hnaut einnig um síðustu málsgrein bæjarstjórans þar sem sagði: „Bærinn getur, ef hann vill og þegar hann vill, keypt eignirnar til baka" og átti þá við eignir Fasteignar. Ekki veit ég hvort þetta átti að vera brandari eða til þess eins fallið að slá ryki í augu bæjarbúa þ.e. eftir því sem ég kemst næst og ætti að vera á allra vitorði og ekki síst bæjarstjórans, þá hefur okkar ástkæri bær rambað á barmi gjaldþrots og hvorki getur, þó hann vilji og þegar hann vill, keypt svo mikið sem vinnuskúr út úr Fasteign án þess að stofna til meiri skulda fyrir bæjarbúa.
Það er réttur hvers einstaklings að tjá sig og í raun nauðsynlegt eins og hefur sýnt sig, að veita ykkur Sjálfstæðismönnum aðhald þegar kemur að stjórn- og fjársýslu. Innleiðing þess að hafa kristileg gildi að leiðarljósi hjá flokknum ætti að vera nóg tilefni til þess að viðurkenna mistök sín og biðjast fyrirgefningar á þeim. Ég fyrir mitt leiti mun verða meðal þeirra fyrstu til að fyrirgefa því þannig var ég nú einu sinni upp alinn. Fyrirgefningu bæjarstjórans á einhverju sem ég ekki lét frá mér á ég ekki skilið en vil gjarnan eiga hana inni þegar og ég hef áunnið mér hana.
Þessi grein er skrifuð af einstaklingi sem ekki er pólitískt tengdur neinum flokki en leyfir sér að bera hag Reykjanesbæjar fyrir brjósti.
Með kveðju,
Þorsteinn Jónsson.