Aðsent

Gefum frösunum frí
Fimmtudagur 11. apríl 2013 kl. 09:05

Gefum frösunum frí

Líklega myndu fáir stjórnarmenn í fyrirtækjum verða uppnumdir af fyrirætlunum framkvæmdastjóra sem legði aðeins fram óljósar hugmyndir um það hvað skyldi gera á næsta rekstrarári. Að skoða hlutina, líta til ákveðinna verkefna, reyna að vinna betur saman o.s.frv. Það sama ætti að gilda um stjórnmálamenn, skýr svör eiga að liggja fyrir um hvert skal stefna og hvað skal gera.

Skýr leið

Í fyrstu leiðtogaumræðum á RÚV fyrir rúmri viku opinberaðist að fá framboð leggja fram skýra stefnu í skuldamálum heimilanna. Guðmundur Franklín Jónsson, formaður Hægri grænna kynnti kynslóðasátt flokksins skilmerkilega. Enginn gagnrýndi tillögur flokksins, enginn benti á hugsanlega galla. Sumir afgreiddu þetta sem töfralausn en það eru orð þeirra sem vilja ekki eða nenna ekki að kynna sér aðrar leiðir en það sem þeim hefur dottið í hug.

Það verður að bregðast við

Sú leið sem Hægri grænir boða er ekki ný leið. Hún hefur verið farin í Bandaríkjunum og þótti takast vel. Þetta er leið sem er vel útfærð og raunhæf. Kynslóðasáttin felst í allt að 45% lækkun höfuðstóls og miðast við þann dag sem Íslendingar tóku upp MIFID reglugerð Evrópusambandsins. Tvö dómsmál eru nú til meðferðar hér á landi þar sem reynir á lögmæti verðtryggingarinnar. Við verðum að huga að því hvað skal gera ef verðtryggingin verður dæmd ólögleg. Vera búinn að bregðast við en ekki bíða þar til allt er komið í óefni.

Hlustum á lausnir

Í kosningunum 27. apríl n.k. verða fjölmargir valkostir í boði fyrir kjósendur. Mikilvægt er að vel takist til næstu fjögur árin og tekið verði á skuldamálum heimilanna. Annars gæti tækifærið runnið okkur úr greipum. Gefum frösunum frí, ráðum fólk til starfa sem leggur fram lausnir. Setjum x við G.

Sigursveinn Þórðarson
viðskiptalögfræðingur og oddviti Hægri grænna í Suðurkjördæmi.