Harry Potter býr ekki hér
Við framleiðum sorp daglega en viljum síðan helst ekkert vita af því meir. Ruslakarlarnir fara bara með það og láta það hverfa. Eða ekki? Við vitum að hvorki sorphirðar né töframenn búa yfir kröftum sem láta hluti hverfa í alvörunni. Sorpið hverfur ekki heldur breytist úr einu efni í annað; verður að ösku og gufu.
Loka eða selja
Sorpmálin á Suðurnesjum hafa sjaldan fengið ítarlega umfjöllun. Nú er hins vegar hávær umræða í gangi varðandi hugsanlega sölu á sorpbrennslustöðinni Kölku, til erlendra aðila. Kalka er ein fullkomnasta sorpbrennslustöð landsins en rekstur hennar hefur verið mjög þungur frá upphafi (opnuð 2004) og nú er stöðin mjög skuldsett. Ástæða þessarar miklu skuldsetningar er sú að í raun settu sveitarfélögin ekki krónu í uppbyggingu Kölku heldu var hún að mestu leyti byggð fyrir lánsfé. Hvað skal gjöra? Selja og taka við „útlensku sorpi“ og treysta á eftirlit opinberra aðila sem hefur hingað til ekki verið mjög traustvekjandi? Loka stöðinni og urða allt saman? Ég veit það ekki enda er engin töfralausn í boði.
Hvers vegna endurvinnsla
En það sem ég veit hins vegar er að við verðum að móta okkur framtíðarsýn í sorpmálum hér á svæðinu og finna heildrænar lausnir. Við getum ekki frestað vandanum endalaust. Ég er mjög hlynnt aukinni endurvinnslu. Það er ekki LAUSNIN á vandamálum Kölku, en kannski partur af stærri heild sem gæti fleytt okkur í rétta átt. Ein leið er að taka stefnuna á umhverfisvottun, líkt og nokkur sveitarfélög á Snæfellsnesi hafa gert. Þar hafa góðir hlutir verið að gerast og ég tel að við getum nýtt okkur reynslu þessara bæjarfélaga til að bæta umgengni við náttúruna hér á svæðinu og bæta um leið ímynd okkar út á við. Í vottunarferlinu er tekið á sorphirðu sem og öðrum umhverfismálum. En hver eru helstu rökin fyrir aukinni endurvinnslu?
1. Lykilatriði er að minnka sorp sem þarf að eyða: Rannsóknir hafa sýnt að sorp minnkar gríðarlega þegar heimilin fara að endurvinna. Tvennt kemur til; hluti úrgangsins verður endurvinnanlegur heimafyrir, t.d. lífrænt sorp og hitt er að fólk fer að huga meira að umfangi umbúða þegar það verslar til heimilisins.
2. Við nýtum betur auðlindir jarðar.
3. Endurvinnsla er hagkvæmari kostur en sorpbrennsla. Sorpbrennsla er dýrasta förgunarleiðin.
4. Minnkar rekstrarkostnað þar sem greitt er fyrir sumar gerðir sorps.
Tökum börnin okkar til fyrirmyndar
Grunn- og leikskólar Reykjanesbæjar eru með mjög öfluga umhverfisfræðslu. Börnin okkar eru umhverfisvæn og hafa góða þekkingu á endurvinnslu og hvernig við getum gengið betur um jörðina. Þessa má geta að af 10 leikskólum bæjarins eru þrír komnir með Grænfánann og þrír til viðbótar eru á Grænni grein. Fjölbrautaskólinn okkar er einnig á Grænni grein. Tveir grunnskólar eru komnir með Grænfánann. Af hverju nýtum við okkur ekki þessa góðu vinnu og höldum boltanum á lofti? Það er eitthvað skakkt við það þegar börnin koma heim, uppfull af visku um umhverfið, að við, fullorðna fólkið, hendum bara öllu í ruslið og brennum því svo. Við hljótum að geta gert betur.
Íslenskt sorp-já takk
Eitt þarf ekki að útiloka annað. Sorpbrennsla og endurvinnsla geta vel farið saman. Taka það besta frá báðum leiðum. Sumt sorp er betra að brenna t.d. sýkt dýr og þess háttar. En það sem þarf hins vegar að gera núna, er að leysa rekstrarvanda Kölku. Einn möguleiki er að loka stöðinni, eins og Húsvíkingar hafa tekið ákvörðun um að gera við sína brennslustöð þar sem hún var of dýr í rekstri. Annar möguleiki er að auka tekjur stöðvarinnar með einhverjum hætti. Við hljótum að geta aukið afköst stöðvarinnar t.d. með því að taka á móti sorpi frá öðrum bæjarfélögum á Íslandi. Við þurfum ekkert endilega að taka við iðnaðarúrgangi frá útlöndum til að bjarga rekstrinum. Mörg bæjarfélög hér á landi eru í vandræðum með sorpið sitt. Hefur sú leið t.d. verið skoðuð og rædd formlega, þ.e. að Kalka brenni sorp frá öðrum bæjarfélögum?
Kalka, er eins og fyrr segir, mjög fullkomin brennslustöð og það er hægt að auka brennsluhitastigið töluvert sem myndi gera brunann betri. Það sem maður setur samt sem áður stórt spurningamerki við, ekki bara við sorpbrennslu, heldur sorpeyðingu almennt, er eftirlitið sem hefur brugðist nokkrum sinnum (sbr. nýleg dæmi frá Ísafirði, Kirkjubæjarklaustri og Vestmannaeyjum). En það er kannski efni í aðra grein. Ég læt þessar hugleiðingar nægja í bili og vona að bæjarstjórn leggi nú hugann í bleyti, hugsi út fyrir boxið og komi fram með ásættanlegar framtíðaráætlanir sem fela í sér heildarlausnir fyrir komandi kynslóðir.
Silja Dögg Gunnarsdóttir
Framsókn Reykjanesbæ