Aðsent

Íslandsmet Ólafs
Föstudagur 26. maí 2006 kl. 09:59

Íslandsmet Ólafs

Ekki kemur á óvart að Ólafur Thordersen og hans félagar hlaupi nú undan merkjum vegna stofnunar Fasteignar hf. á sínum tíma og fjalli nú mikið um hversu vitlaus ákörðun það var.

Tillagan um stofnun Fasteignar hf. var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum í bæjarstjórn, þar á meðal atkvæði Ólafs. Engar forsendur hafa breyst frá stofnun félagsins nema að nú eiga sveitarfélögin meirihluta í félaginu en ekki fjármálastofnanir og bankar eins og áður var ráðgert. Ólafur hefur hins vegar tekið við skipunum frá Framsóknarmönnum sem segja honum að ófært sé að samþykkja slíka ráðgerð og betra sé að tala gegn málinu nú þrátt fyrir að hafa samþykkt það á sínum tíma í bæjarstjórn.

Ólafur er vanur að hlaupast undan merkjum og hefur aldrei boðið sig fram til sveitarstjórnar undir sama framboði tvennar kosningar í röð. 1994 var það Alþýðuflokkurinn, 1998 var það Bæjarmálafélagið, 2002 var það Samfylkingin og 2006 er það A-listinn. Reyndar er oddviti A-listans þegar farinn að draga í land með sameininguna og segir að í raun hafi menn bara gengið bundnir til kosninga en ekki óbundnir. Hvernig er þetta eiginlega?

Það er ótrúverðugt að vera stöðugt að skipta um merki. Það getur verið skiljanlegt einu sinni á ferlinum en að bjóða fram fyrir 4 framboð í fernum kosningum hlýtur að vera Íslandsmet. Skyldi Ólafur vera stoltur af því meti ?

Árni Árnason
formaður Heimis, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ