Kallinn á kassanum

ÞAÐ ER ÁSTÆÐA til að þakka Víkurfréttum fyrir úttektina á fátækt í Reykjanesbæ í síðasta blaði. Það er ótækt að heiðvirt fjölskyldufólk sem hefur orðið fyrir því láni að eignast börn, en því óláni að geta ekki menntað sig skuli ekki hafa möguleika á því að lifa mannsæmandi lífi. Þetta fólk sem vinnur myrkranna á milli hefur kannski um 200 þúsund krónur í laun fyrir mánuðinn. Börnin eru kannski þrjú. Þau búa í leiguhúsnæði. Haldið þið að þau lifi góðu lífi af þessum launum.? Hvar er þetta öryggisnet sem stjórnmálamennirnir tala um? Ísland er í hópi ríkustu þjóða heims! Er ekki kominn tími til að aðstoða það fólk sem á þarf að halda, sama hvort um sé að ræða láglaunafjölskyldufólk, öryrkja, fólk með félagsleg vandamál, einstæðar mæður og fleiri hópa? Nú eru kosningar á næsta leiti og það þarf að grípa tækifærið og koma þessum málum í lag - hvort sem hækka þarf launin eða bæta félagslega aðstoð. Kallinn krefst þess!
Í FRAMHALDI af þessu vill Kallinn óska eftir svari frá því Suðurnesjafólki sem situr á listum flokkanna í Suðurkjördæmi. Það eru Jón Gunnarsson á lista Samfylkingar, Hjálmar Árnason á lista Framsóknarflokksins, Árni R. Árnason á lista Sjálfstæðisflokksins og Þórunn Friðriksdóttir á lista VG. Kallinn vill fá skýrt svar frá þessum aðilum við spurningunni: Hvernig ætlið þið að beita ykkur fyrir því að sporna við fátækt á Suðurnesjum? Sendið svar á [email protected]. Þess er krafist!
HIN ÁRLEGA SÍMASKRÁ knattspyrnudeildar Keflavíkur kom út fyrir stuttu og er þar margt fróðlegt að sjá. Kallinn fékk ábendingu frá lesanda um það að nafn látins einstaklings væri í bókinni, hjón skráð á sitthvort heimilsfangið og gömul símanúmer gefin upp hjá fólki. Einnig eru íbúar Njarðvíkur staðsettir í Keflavík. Það er ekki nóg að gefa út símaskrá með einhverjum símanúmerum - þau þurfa að vera rétt. Kallinn, sími 4XX XXXX
HÆTTUM öll að reykja!
Kveðja, [email protected]