Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Aðsent

Kirkja fólksins  á líka að velja prest í Keflavíkursókn
Sunnudagur 28. júní 2015 kl. 11:49

Kirkja fólksins á líka að velja prest í Keflavíkursókn

Í aðsendu bréfi er birtist á vf.is 25. febrúar 2015 og það síðan áréttað á forsíðu Víkurfrétta degi síðar var hvatt til þess að almennar prestkosningar færu fram í Keflavíkursókn. Sú varð raunin eftir að tókst að safna saman nægum fjölda undirskrifta og sr. Erla Guðmundsdóttir var kosin sóknarprestur á lýðræðislegan hátt. Eins og fram kom í áskorun þeirra fimm er settu nafn sitt undir greinina skiptir höfuðmáli að sóknarbörn fái sjálf að velja sér prest, óbundin af þeim þröngu reglum sem gilda um val á opinberum embættismönnum. „Kirkja fólksins á að fá velja sér þann prest sem þar á að þjóna“.

Eftir stendur ráðning á presti í Keflavíkurkirkju sem starfa á við hlið sóknarprestsins. Samkvæmt venju var valnefnd, þar sem í sitja nokkrir fulltrúar sóknarbarna, falið að velja úr þeim aðilum sem sóttu um stöðuna, en sama nefnd hefði átt að velja sóknarprest. Biskup Íslands hefur ákveðið að nýta sér ákvæði í reglum um val og veitingu prestsembætta og fara ekki að vilja nefndarinnar og stendur til að auglýsa embættið aftur.

Því hlýtur að vera aftur komin upp sú staða að sóknarbörn fái að nýta sér rétt sinn og fara fram á kosningar.

Það er lýðræðislegt að sóknarbörn fái sjálf að velja sér prest og jákvætt fyrir starf kirkjunnar. Því hvetjum við íbúa í Keflavíkursókn til að sameina krafta sína að nýju og fara fram á almennar prestkosningar. Leyfum fólkinu að taka með beinum hætti þátt í því að velja sér prest. Leyfum fólkinu að ráða í starfið.


Leifur A Ísaksson.

Guðrún Jónsdóttir.

Gunnar Már Másson.

Guðbjörn Ragnarsson.

Hermann Árnason.

Þóra S Ólafsdóttir.

Hrönn Jóhannesdóttir.

Ágúst Hrafnsson.

Trausti Hannesson.

Anna Björg Gunnarsdóttir.

Hlynur Jónsson.

Bergþóra G Bergsteinsdóttir.