Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Aðsent

Kirkja fólksins á aftur að velja prest í Keflavíkursókn
Sunnudagur 19. júlí 2015 kl. 07:05

Kirkja fólksins á aftur að velja prest í Keflavíkursókn

Ég vil byrja þetta greinarkorn á að biðjast afsökunar á því að leiður misskilningur hafi orðið í kjölfar undirskriftalista sem við stöndum fyrir hér nokkur í okkar kæru Keflavíkursókn. Ég vil taka skýrt fram að þessi listi er ekki tengdur Sr. Erlu á nokkurn hátt. Vil ég enn fremur hvetja hvern þann sem hefur áhyggjur af þessum lista að hafa beint samband við mig svo ég fái tækifæri til að leiðrétta allan misskilning, og ég geti sjálfur komist að því af hverju þessi misskilningur yfirleitt byrjaði.


Það er bara einn tilgangur með þessum undirskriftalista, og hann er sá að sóknarbörn öll fái að velja sér sinn prest þ.e. staða sr. Sigfúsar. Hugmyndin er einfaldlega sú að í þessum málum sé lýðræði. Það er ekki hægt að koma neinum presti að með undirskriftalista, sama hverjum sá prestur gæti verið tengdur. En það er hægt að hvetja til þess að lýðræði fái forgang með undirskriftalista og til þess erum við að þessu.


Okkur þykir leitt ef einhver hafi gefið í skyn að sr. Erla standi fyrir þessari undirskriftasöfnun. Sennilega stafar misskilningurinn af því að það ferli sem við erum að biðja um nú er einmitt það ferli sem fór í gang fyrir ráðningu hennar. Ég vil einmitt minna á frábæra grein eftir Axel Jónsson, Konráð Lúðvíksson og fleiri góðvini Keflavíkurkirkju þar sem hvatt var til þess að fólkið sjálft fengi að velja í krafti lýðræðis. Ég endurtek bara orð þeirra þegar ég segi að „kirkja fólksins á að velja sér þann prest sem þar á að þjóna“.
Því vonum við að Keflvíkingar taki með opnum hug þeirri hugmynd að skrifa undir þennan lista þegar við bönkum upp á, því við viljum bara viðhalda þeirri hefð að þeir fái allir að velja sér prestanna er þjóna í Keflavíkurkirkju.

Reykjanesbær, 18. júlí 2015,
Leifur A. Ísaksson.