Kosningaskjálfti á fundi bæjarstjórnar
Árni Sigfússon bæjarstjóri sagði á fundi bæjarstjórnar í gær að það væri bagalegt að heyra hvernig fulltrúar Samfylkingarinnar fjölluðu um málið. Árni sagði í samtali við Víkurfréttir að hann væri „klökkur“ yfir trú bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar á mátt hans varðandi varnarmál. „Aðalatriðið er að semja um áframhaldandi veru Varnarliðsins og ég treysti núverandi stjórnarflokkum best til þess. Því miður hefur Samfylkingin talað þannig að það er full ástæða til að hafa áhyggjur af hennar orðum. Bæði hefur forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar og leiðtogi flokksins í Suðurkjördæmi talað á þann veg að þau gera ýmist ráð fyrir að Varnarliðið fari eða gagnrýna stjórnvöld helst í dag fyrir að hafa ekki undirbúið brottför þess.“
Fjörug umræða varð á fundinum og var skipst á skoðunum varðandi málið. Meðal annars steig Þorsteinn Erlingsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í pontu og sagðist hissa á að heyra í Jóhanni Geirdal bæjarfulltrúa Samfylkingarinnar yfir því hve hann tæki fækkun í Varnarliðinu nærri sér því Jóhann hefði verið á móti veru Varnarliðsins hér á landi. Jóhann Geirdal svaraði úr sæti að hann hefði verið sá eini sem hefði haft áhyggjur af störfum íslendinga hjá Varnarliðinu.
VF-myndasafn.