KR sendi kjúklinga til KEF

KALLINN HEFUR séð nýja bæjarhliðið upplýst við Vogastapa og Kallinn er mjög ánægður. Skiltið er flott að hans mati og á bara eftir að verða jákvætt fyrir sveitarfélagið. Þrjár milljónir eru ekki mikið fyrir skilti sem þetta – prýði fyrir bæinn.
ÞEIR ERU margir sjálfstæðismennirnir sem hafa hlegið dátt að því að Forseti vor hafi ekki verið boðaður á ríkisráðsfund. Og að sama skapi hefur Kallinn heyrt í mörgum Samfylkingarmanninum sem finnst það óverjandi að Forsetinn hafi ekki verið boðaður. Ótrúleg þessi pólitík. En ætli Davíð hyggi á forsetaframboð í vor?
HVERNIG FINNST fólki hið nýja DV? Kallinn óskar eftir viðbrögðum!
MARGIR ÍBÚA VOGA Á Vatnsleysuströnd eru ekki par ánægðir með sorphirðugjöldin þar á bæ. Segja þau mun hærri en í nágrannasveitarfélögum. Kallinn óskar eftir skýringum. Eru gjöldin í Vogum hærri en annarsstaðar?
KALLINN HVETUR alla til að mæta á bikarúrslitaleikina sem fram fara í Laugardalshöll um helgina og minnir á ódýrar rútuferðir á leikina. Kallinn yrði verulega hissa ef fólk myndi láta þessa stórleiki fram hjá sér fara. Allir í höllina!
KALLINN er annars verulega reiður fyrir hönd knattspyrnudeildar Keflavíkur, en deildin stóð fyrir glæsilegu fótboltamóti um síðustu helgi sem gekk vel, fyrir utan eitt. KR-ingarnir sendu kjúklingalið sitt til að spila við Keflvíkinga og sögðu forsvarsmenn KR að ástæðan væri sú að aðalliðið ætti að spila í Reykjavíkurmótinu daginn eftir. Kallinn er vondur yfir þessu virðingarleysi sem KR-ingar sýndu Keflavík. Leikurinn var marklaus fyrir vikið. KR-ingar þurfa að læra mannasiði og forsvarsmenn Keflavíkur ættu að fara fram á afsökunarbeiðni.
FÓTBOLTAKVEÐJA;
[email protected]