Læknaráð styður framkvæmdastjórn HSS

Framkvæmdastjórn HSS framfylgir stefnu sem mörkuð var af fagaðilum stofnunarinnar í samráði við heilbrigðisyfirvöld og miðar að því að veita þá bestu þjónustu sem fjárlagarammi gerir kleift með sérstaka áherslu á að auka þjónustu í heimabyggð við Suðurnesjamenn.
Hluti þeirrar stefnu er nútímaleg öldrunarþjónusta sem leitast við að gera öldruðum kleift að eiga áhyggjulaust ævikvöld á heimilum sínum með öflugri heimahjúkrun, endurhæfingu og skammtímainnlögnum þegar sjúkdómar herja á.
Sjúkrarými stofnunarinnar er nýtt með þeim hætti sem læknar telja að komi að sem bestum notum fyrir heildarhag sjúkra á Suðurnesjum. Mikil efling bráðaþjónustu hefur valdið því að á hverjum tíma eru 15-20 Suðurnesjamenn inniliggjandi á HSS, sem annars hefðu þurft að liggja á Landspítala með tilheyrandi óhagræði fyrir þá og aðstandendur þeirra. Þessir sjúklingar eru á öllum aldri en flestir aldraðir.
Læknaráð lýsir óskoruðum stuðningi við framkvæmdastjórn HSS í áframhaldandi uppbyggingu öflugrar heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum og hvetur til samráðs við fulltrúa almennings.