Aðsent

Mun ekki greiða atkvæði
Þriðjudagur 28. apríl 2015 kl. 13:42

Mun ekki greiða atkvæði

Vegna umræðu um fyrirhugaða kvótasetningu á makríl vil ég koma eftirfarandi á framfæri:

Á næstu vikum verða atkvæði greidd á Alþingi um frumvarp sjávarútvegsráðherra um kvótasetningu á makríl. Vegna tengsla minna við fyrirtæki í sjávarútvegi mun ég sitja hjá við afgreiðslu málsins, líkt og ég hef gert við afgreiðslu annarra mála af sama toga.


Í störfum mínum á Alþingi hef ég ekki dregið fjöður yfir þá staðreynd, að tengsl mín við sjávarútveginn eru töluverð. Ég hef verið til sjós, starfað við sjávarútveg í landi og á 5% hlut í útgerðarfélaginu Vísi hf., eins og fram kemur í hagsmunaskráningu á vef Alþingis. Því til viðbótar er eiginkona mín eigandi og framkvæmdastjóri smábátaútgerðarinnar Marvers ehf.  Þau tengsl eru ekki tilgreind í hagsmunaskráningu, enda er í henni ekki gert ráð fyrir skráningu á eigum maka þingmanna né gefinn möguleiki á að bæta við auka athugasemdum í þeirri skráningu.



Vegna ofangreindra tengsla hef ég ekki greitt atkvæði í atkvæðagreiðslum þingsins um kvótamál, veiðileyfa- eða veiðigjaldamál.  Hins vegar hef ég áskilið mér rétt til að taka þátt í umræðu um þessa grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar, enda er mikilvægt að sjónarmið þeirra sem þekkja vel til greinarinnar heyrist. 



Það er mikilvægt að á Alþingi komi fram ólík sjónarmið um mikilvæg mál, enda vilja allir þingmenn vinna þjóðinni gagn.  Sjálfur hef ég lýst yfir efasemdum um ágæti þess að hlutdeildarsetja handfæraveiðar smábáta á makríl (sjá t.d. hér).  Sú skoðun mín breytir ekki þeirri staðreynd, að ég mun sitja hjá þegar atkvæði verða greidd um málið.  



Virðingarfyllst,

Páll Jóhann Pálsson
alþingismaður