Okkur líður vel á Ásbrú
Í umræðunni er oft dregin upp mjög slæm mynd af Ásbrú. Talað er um þjófnað, eiturlyfjanotendur og almennt að allt það sem gerist upp á Ásbrú sé slæmt, hverfið hafi tekið stóru stökki frá því sem áður var og sé nú hreint og beint helvíti að búa hér.
Ég er fædd og uppalin í Keflavík og hef búið upp á Ásbrú í eitt og hálft ár. Ég hef ekki orðið vör við það að hér sé meira um þjófnað eða eiturlyfjaneyslu heldur en annarstaðar. Hlutunum er allsstaðar stolið ef ekki er nógu vel passað upp á þá og þótt það sé vel passað upp á þá þá er þeim samt stolið.
Síðustu vikur hefur verið brotist inn í fyrirtæki og tölvubúnaði stolið, olíu stolið af vinnuvélum og olíutunnum stolið ásamt kerru. Bílstuldur og innbrot í verkfæragám. Ekkert af þessu gerðist þó upp á Ásbrú.
Það gerast slæmir hlutir allstaðar ekki einungis upp á Ásbrú og finnst mér óþarfi að verið sé að sverta hverfið með slæmu umtali. Hvergi sé ég talað um alla þá góðu hluti sem gerast hér.
Við íbúar erum með síðu á Facebook, þar er talað um allt á milli heima og geima. Fólk leitar ráða hjá hvort öðru og biður um aðstoð. Ég persónulega hef aldrei áður búið í hverfi þar sem fólk er alltaf boðið og búið til að hjálpa, vantar einhverjum far í bæinn eða Bónus, þá setjum við það á vefinn og í flestum tilfellum getur einhver aðstoðað mann. Gleymdist eitthvað í búðinni? Jú ekki málið, íbúi í blokk sem ég hef aldrei stigið inn í áður er til í að redda mér. Vantar pössun allt í einu, ekki vandamálið það er alltaf einhver sem er til í að hjálpa þér. Ég hef meira að segja séð fólk, bæði fullorðna og börn, fara út að leita að týndum dýrum svo ekki fari illa fyrir þeim eða af því eigendur hafa sjálfir ekki tök á því að fara út að leita.
Þessir hlutir eru aðeins brot af því sem íbúar Ásbrúar telja vera sjálfsagðan hlut. Við búum í góðu samfélagi þar sem náungakærleikurinn nær að skína í gegn og er það hluti af því afhverju mér líður svo vel hérna. Hér er fullt af heiðarlegu og góðu fólki þó það geti leynst einn og einn svartur sauður á milli en það leynast allsstaðar svartir sauðir og er Ásbrú ekki undantekningin á því.
Við skulum ekki sverta heilt hverfi bara af því að þar gerast glæpirnir eins og allstaðar annarstaðar, við skulum reyna sjá það góða við hverfið og kærleikann sem ríkir á milli íbúa, sem eru alltaf til taks fyrir hvorn annan sem gerir það að verkum að hér er frábært að búa.
Fyrir hönd margra ánægðra íbúa Ásbrúar,
Ólöf Ögn Ólafsdóttir.
Séð yfir hluta byggðarinnar á Ásbrú í Reykjanesbæ.