Sunnudagur 2. mars 2003 kl. 14:42
Samfylkingin nýtur mest fylgis í Suðurkjördæmi

Samfylkingin nýtur mest fylgis stjórnmálaflokkanna í febrúar samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallups. Litlar breytingar eru á fylgi flokkanna frá því í janúar. Í úrtaki Gallups í febrúar voru tæplega 5.000 manns. Svarhlutfall var 68%. Spurt var hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til kosninga nú og svo áfram ef fólk svaraði ekki hvað er líklegast að þú myndir kjósa og hvort er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna. 22% vildu ekki svara, voru óákveðnir eða ætla ekki að kjósa.Í Suðurkjördæmi nýtur Samfylkingin mest fylgis samkvæmt könnuninni en í kjördæminu styðja um 43% Samfylkinguna. 33% styðja Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkurinn nýtur stuðnings 16% íbúa. Frjálslyndi flokkurinn og Vinstri Grænir njóta stuðnings 4% íbúa hvor flokkur.
Árni Ragnar Árnason efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sagði í samtali við Víkurfréttir að hann væri alls ekki ánægður með niðurstöður skoðanakönnunarinnar: „Mér finnst þetta bara alls ekki nógu gott. Við verðum að ná betri árangri. Störf og árangur ríkisstjórnarinnar verðskulda meira fylgi. Við höfum verið á ferðinni um allt kjördæmið upp á síðkastið þar sem við finnum fyrir miklum stuðningi og þegar þingi lýkur þá verður allt sett á fullt. Ég hef trú á því að það muni skila sér,“ sagði Árni í samtali við Víkurfréttir.