Aðsent

Fimmtudagur 24. janúar 2002 kl. 07:36

Skúli Thoroddsen í framboð í Reykjanesbæ

Ég undirritaður hef ákveðið að gefa kost á mér í eitt af efstu sætum framboðslista Samfylkingarinnar fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor. Opið prófkjör um skipan listans verður haldið 23. febrúar næstkomandi.
Markmiðið með framboði mínu er að taka virkari þátt í mótun samfélagsins til hagsbóta fyrir einstaklinga og fjölskyldur í bæjarfélaginu. Ég hef mikinn áhuga á mennta- og atvinnumálum, þannig að saman fari gerjun og gróska í atvinnulífinu og uppbygging á traustu félagslegu umhverfi. Á næstu vikum mun ég gera betur grein fyrir hugmyndum mínum og áherslum í bæjarpólitíkinni.
Hér býr gott fólk og möguleikarnir til almennrar velmegunar eru miklir. Reykjanesbær verður að geta boðið umgjörð um nýsköpun atvinnulífs og félagslegrar þjónustu í umhverfisvænu samfélagi sem gerir það eftirsóknarvert að búa hér og starfa. Fyrir því mun ég berjast og óska eftir stuðningi bæjarbúa til þess.

Skúla Thoroddsen, forstöðumaður Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum.