Aðsent

Stjórnarskrá Nýja Íslands
Mánudagur 22. nóvember 2010 kl. 13:22

Stjórnarskrá Nýja Íslands

Stjórnarskrá okkar Íslendinga er komin á aldur í orðsins fyllstu merkingu, en hún var samþykkt 17. júní árið 1944. Það er því ansi táknrænt að stjórnlagaþingið taki til starfa á 67. starfsári stjórnarskrárinnar. En er ekki komin tími til að stjórnarskráin okkar dragi sig í hlé og önnur ferskari taki við? Ég hef aldrei verið þeirra skoðunar að breyta, bara breytinganna vegna. Að eitthvað sé komið til ára sinna þýðir ekki endilega að það sé úrelt. En við getum öll verið sammála um að það sé löngu orðið tímabært að taka stjórnarskrá vora til gagngerrar endurskoðunar. Það gengur það sama yfir þessa æðstu réttarheimild Íslendinga, líkt og svo margt annað, að ef því er ekki haldið við, gengur það úr sér og verður ónothæft.


Mín skoðun er sú að það þurfi að yfirfara stjórnarskránna all rækilega. Það þarf að einfalda málfarið, hafa hana skýra, þ.e. án hættu á mistúlkunum og bæta inn áherslum frá þjóðfundinum. Eftir bankahrunið 2008 gerir þjóðin ríkar kröfu um endurbætur enda ekki vanþörf á. Við þurfum að stokka upp kerfið okkar, setja strangari lög og viðurlög og skilgreina svo ekki verði um villst, hver beri ábyrgð á hverju.


Til að koma í veg fyrir annað hrun í nánni framtíð þurfum við að taka af festu á þrígreiningu valdsins og setja skýrar reglur. Auka aðhald, eftirlit og viðurlög með öllu valdi. Það þarf að setja skýrar reglur um ábyrgð og viðurlög þeim samfara. Samhliða störfum sem lúta að hagsmunagæslu þjóðarinnar á að setja bann við setu í stjórnum, nefndum og á eignarhaldi í einkageiranum. Það á aldrei góðri lukku að stýra að sitja begga megin borðsins.


Hagsmunir þjóðarinnar eiga ávallt að hafa forgang

Ég tel nauðsynlegt að tryggja sjálfstæði dómstóla, styrkja löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið. Ráðherrar eiga ekki að sitja á alþingi og ég tel við hæfi að þjóðin kjósi löggjafarvaldið, framkvæmdavaldið og dómsvaldið. Þessi embætti eiga að sækja valdið til þjóðarinnar en ekki stjórnmálaflokka eða sérhagsmunahópa.
Við þurfum að leggja áherslur á að auðlindir þjóðarinnar séu í þjóðareign auk þess að tryggja jafnan rétt allra Íslendinga.


Við þurfum að komast að niðurstöðu um embætti forseta Íslands. Ég tel að þetta embætti eigi að vera ópólitískt sameiningartákn þjóðarinnar. Forsetisráðherra, sem með kjöri frá þjóðinni skipi með sér ráðherra færi þá með framkvæmdavaldið. Aukum svo þátt þjóðarinnar í stjórnun landsins og látum þjóðinni eftir að kjósa um mikilvæg mál.


Ég er í framboði til stjórnlagaþings og vonast eftir þínu atkvæði. Nái ég kjöri mun ég beita mér fram í heiðarleika af því að ná fram sem bestri stjórnarskrá þjóðinni til heilla.


Bestu kveðjur,
Jóhanna Guðmundsdóttir, frambjóðandi 5317
sjá nánar á www.johannag.is