Aðsent

Upp með álverið
Föstudagur 12. apríl 2013 kl. 09:47

Upp með álverið

Kosningarnar í vor snúast um að taka á vanda skuldugra heimila. Við framsóknarmenn ætlum að leiðrétta lán og taka á verðtryggingunni sem er mein í íslensku samfélagi. Heimilin eru undirstaða samfélagsins. Samhliða þarf að grípa til margvíslegra aðgerða til að koma hjólum atvinnulífsins í gang á nýjan leik.

Framsókn er atvinnumálaflokkur – við viljum byggja upp fjölbreytt atvinnulíf þar sem allir landsmenn geta fundið verkefni við sitt hæfi. Hér á Suðurnesjum er atvinnuleysi búið að mælast mest og í lengstan tíma. Það þarf því að setja sérstakan kraft í atvinnuuppbyggingu hér.

Stóra atvinnuverkefnið
Stóriðjuframkvæmdir í Helguvík eru stórt atvinnuverkefni og þar með mikið hagsmunamál allra Suðurnesjamanna. En ekki bara Suðurnesjanna heldur Íslands í heild. Við þurfum verulega aukna fjárfestingu og aukinn hagvöxt.  Framsókn styður áframhaldandi uppbyggingu atvinnustarfsemi í Helguvík. Næg atvinna er forsenda og undirstaða velferðar t.a.m. nauðsynlegrar enduruppbyggingar heilbrigðiskerfisins.

Reykjanesvirkjun stækkuð í 180 MW
HS Orka fékk þann 15. september árið 2011 virkjunarleyfi frá Orkustofnun fyrir 80MW stækkun á Reykjanesi. Orkuverið er  nú 100MW þannig að þegar stækkunin hefur átt sér stað þá framleiðir orkuverið 180MW. Frekari stækkanir eru í farvatninu. - Ef samningar um orkuverð nást og álverið í Helguvík hefur starfsemi sína þá mun það kaupa raforku af fleiri orkufyrirtækjum, m.a. HS Orku.

Orkufyrirtækin í eigu Íslendinga
Framsókn stefnir að því að í framtíðinni verði virkjanaleyfi til stærri verkefna háð því að a.m.k. 2/3 hlutar orkufyrirtækisins verði í eigu opinberra aðila til að tryggja að arðurinn af orkunni renni til íslensks samfélags. Við teljum það öryggis- og hagsmunamál íslensku þjóðarinnar.

Nú er staðan sú að erlent einkafyrirtæki, Alterra Power, á meirihlutann í HS Orku en restin er í eigu íslenskra lífeyrissjóða. Það er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að erlendir aðilar komi á morgun og geri Alterra gott tilboð í HS Orku. Til að tryggja samstöðu um orkunýtingu viljum við fara að fordæmi Norðmanna og tryggja breiðari eignaþátttöku opinberra aðila í stórum virkjanaframkvæmdum.  Orkufyrirtækin okkar eru eitt af því sem ekki á að ganga kaupum og sölum á frjálsum markaði.

Með því að taka á skuldamálum heimila samhliða öflugri atvinnuuppbyggingu leggjum við grunn að góðu samfélagi framtíðar.

Sigurður Ingi Jóhannsson
1. sæti Framsóknar Suðurkjördæmi

Silja Dögg Gunnarsdóttir
2. sæti Framsóknar Suðurkjördæmi