Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Aðsent

Úthafsrækjan - samráðsforstjórar LÍÚ - svona haga þeir sér
Föstudagur 23. júlí 2010 kl. 09:22

Úthafsrækjan - samráðsforstjórar LÍÚ - svona haga þeir sér

Um miðjan febrúar 2006 bárust þau tíðindi að grálúðukvóti innan íslenskrar lögsögu væri nær ófáanlegur til leigu nema kanski gegn ofurgjaldi.

Þessi staða kom flestum í opna skjöldu, ekki síst í ljósi þess að einungis hafði náðst að veiða 4314 tonn af 16.146 tonna úthlutuðu aflamarki það fiskveiðiárið.

Ekki náðist að veiða 6000 tonn af 17.900 tonna aflamarki í grálúðu á fiskveiðiári á undan 2004/2005.

Lengst af á þessu tímabili og hafði leiguverð á grálúðukvóta verið á bilinu 30 til 40 krónur fyrir kílóið og framboð margfalt umfram eftirspurn.

En í febrúar 2006 brá svo við að ekki var hægt að fá leigt eitt einasta kíló af grálúðu og skiptir þá varla nokkru máli hvaða upphæð var í boði.

Það er ljóst að íslenskar aflaheimildir í grálúðu eru á höndum örfárra fyrirtækja innan LÍÚ og einfalt mál fyrir forstjórana að ráða framboði og verði á leigukvótum.

Ekki þarf að hringja nema örfá símtöl eða senda tölvupósta til að stoppa framboð á grálúðukvótum og sprengja verðið upp úr öllu velsæmi.

Þetta hafa þeir leikið hvað eftir annað árum saman í öllum tegundum með það eitt að markmiði að slátra öllum leiguliðum á kvótalausum skipum.

En af hverju gerist þetta í febrúar 2006 þrátt fyrir að sýnt var að ekki náist að veiða nema hluta af því aflamarki í grálúðu sem eftir var á yfirstandandi fiskveiðiári ?

Svarið við þessari spurningu vita fáir enn sem komið er en aftur á móti vitum við það nokkrir sem um málið fjöllum.

Tvö skip Síldey NS-25 og Jón Steingrímsson RE-7 höfðu verið útbúin af eigendum sínum til netaveiða á grálúðu. Þessi tvö skip voru kvótalaus með öllu og höfðu verið lengi.

Útgerðirnar mátt reiða sig á leigukvóta og treyst á að framboð væri nægilegt á hverjum tíma þó svo að endurgjaldið hafi verið langt umfram það sem þær höfðu ráðið við að greiða.

Verð á leigukvóta í grálúðu hafði verið mjög lágt undangengin ár eins og áður greinir en verð á afurðum mjög hátt.

Því var eðlileg og sjálfsögð sjálfsbjargarviðleittni hjá útgerðum Síldeyjar og Jóns Steingrímssonar að keyra sig út úr leigu á þorski og öðrum rándýrum bolfisktegundum og skipta yfir á veiðar í grálúðunet.

Aðeins eitt skip stundaði veiðar við Ísland með grálúðunetum Tjaldur SH-270 sem var í eigu Brims hf.

Útgerð Tjalds var því frumkvöðull í veiðum á grálúðu með netum við Ísland og höfðu veiðarnar gengið ákaflega vel.

Forsvarsmaður útgerðar skipsins var Guðmundur Kristjánsson sem jafnframt er langstærsti einstaki eigandi í úthlutuðu aflamarki grálúðu innan íslenskrar fiskveiðilögsögu.

Haft var eftir útgerðarmanninum ef fleiri skip ætluðu að fara á veiðar með grálúðunet til viðbótar við Tjaldinn þá yrði ekkert til skiptana í sjónum hringinn í kringum landið þar sem öll lögsaga Íslands út á 200 sjómílur þyldi einungis eitt skip.

Slíkur málflutningur er heimskulegur en gefur svarið við þeirri spurningu sem sett var fram hér að framan.

Það er skemmst frá því að segja að útgerðirnar sem gerðu út Síldey og Jón Steingrímsson urðu mjög fljótlega gjaldþrota vegna samráðs og kúgunnar LÍÚ.

Nákvæmlega þetta hefur þeim gengið til með allar aðrar tegundir og er rækjan ekki undan skilin.

Nákvæmlega þetta ætla þeir sér að gera ef ráðherra sjávarútvegsmála Jón Bjarnason bakkar með þá ákvörðun sína að gefa veiðar á úthafsrækju frjálsar.

Er það þetta sem Íslendingar vilja horfa upp á áfram að örfáir einstaklingar leiki sér að því að rústa hagsmunum þjóðarinnar í skiptum fyrir sína eigin stundar hagsmuni ?

Níels A. Ársælsson.