Verðlaunasamkeppni um nýtt aðalskipulag í nýju sveitarfélagi
Eiga byggðakjarnarnir að stækka hver á sinn hátt, á að byggja í jaðri þeirra beggja þannig að þeir byggist saman að lokum eða á jafnvel að hanna sér byggðakjarna með íbúðum og þjónustukjarna á milli hinna byggðakjarnanna?
Samkvæmt lögum ber sveitarstjórn að meta þörf á því hvort breyta skuli aðalskipulagi að loknum sveitarstjórnarkosningum. Eftir sameiningu Garðs og Sandgerðis er nauðsynlegt að gera nýtt aðalskipulag fyrir hið nýja sveitarfélag og verður sú vinna eitt mikilvægasta verkefni nýrrar bæjarstjórnar. Þó nokkur umræða hefur verið um hvernig haga skuli þeirri uppbyggingu á næstu árum og áratugum.
Það er trú okkar á D-lista sjálfstæðismanna og óháðra að vinna við nýtt aðalskipulag eigi að hefjast með því að fara í opna samkeppni þar sem horft verði á þróun okkar nýja sveitarfélags út frá þeim fjölmörgu styrkleikum sem okkar sveitarfélag hefur. Hér má meðal annars nefna að við höfum gjöful fiskimið og góða höfn sem er aðeins í nokkurra mínútu fjarlægð frá alþjóðaflugvelli, flugvelli sem stækkar með hverju árinu og veitir íbúum fjölbreytt störf. Við höfum náttúru sem er verðmætari en margan grunar og okkur ber að varðveita, hún er og verður aðdráttarafl fyrir þá fjölmörgu sem vilja sækja okkur heim. Við erum með tvo byggðarkjarna þar sem við höfum og munum huga að fjölskylduvænu umhverfi, þar sem íþróttir og aðrar tómstundir eru í seilingarfjarlægð frá íbúunum.
Ég hef komið að skipulagsmálum í Garði frá 2002 og einnig setið í skipulagsnefnd Keflavíkurflugvallar. Auk þess hef ég komið að Svæðisskipulagi Suðurnesja og hef eins og margir aðrir í sveitarfélaginu sterka skoðun á hvert skal stefna. Álit okkar sem hér búum er mikilvægt innlegg í þá vinnu sem er framundan en hættan er samt sú að við íbúarnir höfum ríka tilhneigingu til að vera ekki nægilega víðsýn, hver og einn horfir nefnilega á þetta séð frá eigin bakgarði.
Allt þetta eru hlutir sem taka verður tillit til við gerð hins nýja aðalskipulags og við eigum að gefa okkar bestu sérfræðingum færi á að koma að þeirri vinnu, fyrir okkur íbúana og framtíð sveitarfélagsins.
Kæru íbúar, við ætlum að vinna að þessu með hag okkar allra að leiðarljósi.
Einar Jón Pálsson
Skipar 1. sæti á D-lista sjálfstæðismanna og óháðra í sameinuðu sveitarfélagi Garðs og Sandgerðis.