Aðsent

Föstudagur 9. apríl 1999 kl. 20:39

VIÐ ERUM BEST!

Jóhann Geirdal skrifar um fjölnota íþróttahús Kílum bara á það, við erum best, við erum fallegust, við erum fyrst. Óneitanlega kemur þetta upp í hugann þegar hlustað er á eða lesnar greinar þess fámenna hóps sem skipar meirihluta bæjarstjórnar um þessar mundir. Því miður virðist hann ekki móta afstöðu sína á rökum eða ígrunduðum upplýsingum, heldur virðist hver hrópa upp í hinn, við erum best, við erum duglegust, við erum klárust, við skulum baða okkur í sviðsljósinu. Í þessum anda er grein Jónínar A. Sanders í síðustu Víkurfréttum. Þar er undirskrift leigusamnings vegna yfirbyggðs leikvallar lýst sem “nýjum kafla í íþróttasögu íslensku þjóðarinnar” og þar vitnað í varaformann ÍSÍ. Vissulega hafa ýmsir í íþróttaforystunni sem búsettir eru annars staðar á landinu hvatt meirihlutann mjög. Þeir þurfa ekki, né heldur börn þeirra að borga brúsann vegna þessarar undirskriftar. Það væri hins vegar undarlegt ef þau nýttu sér ekki það tækifæri að geta att meirihlutanum á foraðið, sérstaklega ef ekki þarf annað en að kitla pínulítið hégómagirndina, með hrósi (þið eruð fyrst). Með oflofi vil ég frekar segja, minnugur þess að slíkt oflof er háð en ekki raunverulegt hrós. Það hafa hingað til ekki talist góðir stjórnendur sem láta þegna sína lönd og leið fyrir smá upphefð að utan. Leggið fram útreikninga ykkar. Það er einkenni slíkra hópa að hafna rökum, einangrast í sínum fílabeinsturni og þegar bent er á augljósa ágalla, er ekki heldur reynt að svara með rökum. Nei hverjir voru á móti stórsöngvaranum Garðari Hólm, sem er annað dæmi um frama sem kemur að utan? Það voru auðvitað afturhaldsseggir og fýlupúkar eins og Kristmundur og Jóhann Geirdal. Þeir eru vondu karlarnir, því það erum við sem erum best! Einu gildir þó bent hafi verið á að sú framsýni sem felst í leið meirihlutans er að hann þorir að beita valdi sínu til að sólunda fé bæjarsjóðs langt umfram nauðsyn. Í þessari sefjun sinn ákveður hann að fara leið sem kostar bæjarsjóð mun meira en aðrar leiðir sem bent hefur verið á. Fulltrúar bæjarmálafélagsins hafa lagt fram nákvæma útreikninga sem sýna þetta á ljósan hátt en það breytir engu. Hefur einhver séð útreikningana sem liggja að baki leið meirihlutans? Hefur einhver séð rök meirihlutans fyrir því hvers vegna við eigum að borga tvær milljónir tvö hundruð og fimmtíu þúsund á mánuði næstu 420 mánuðina fyrir verðmæti sem er ekki meira en 371 milljón. Hef ur einhver séð þá útreikninga sem sýna að það geti verið hagstætt að greiða 945 milljónir í leigu á þessum tíma og eignast ekkert í húsinu. Ef við bætum verði hússins, þess sem tekið er á leigu við, til að eignast húsið, verður upphæðin sem við þyrftum að greiða einn miljarður þrjú hundruð og sextán milljónir fyrir verðmæti sem er metið á 371 milljón. Nei lesandi góður sennilega hefur þú ekki séð rök meirihlutans eða útreikninga, við höfum heldur ekki séð þau. Reynt er að slá ryki í augu fólks með því að bera leigu á fermetra í svona skemmu við fullbúið íþróttahús, eða vandaða skrifstofubyggingu eins og Tjarnargötu 12. Það eru ekki fermetrarnir heldur það verðmæti, sem við erum að taka á leigu sem skiptir máli. Við slíkan samanburð kemur í ljós að leigan fyrir yfirbyggða leikvanginn er mjög há. Ég skora á fulltrúa þessa sjálfumglaða meirihluta að leggja nú fram útreikninga sína, svo íbúar (greiðendur) geti séð hvað þið eruð framsýn og klár. Þess má líka geta í leiðinni að enn hefur meirihlutinn ekki gert grein fyrir því hvernig á að reka þetta hús. Skoðanakönnun Eitt af því fáa sem meirihlutinn hefur bent á er að fyrir kosningar hafi farið fram skoðanakönnun og þar hafi komið í ljós að 75.1% þeirra sem svöruðu hafi viljað fjölnota íþróttahús. Þetta er reynt að nota til að réttlæta það sem meirihlutinn er nú að gera. Í fyrsta lagi var fólk í þessari könnun að svara hvort það vildi “fjölnota íþróttahús”, en það viljum við jú flest, ef skynsamlega er staðið að framkvæmdum, en nú er aðeins verið að tala um “yfirbyggðan leikvang með gervigrasi”. Í öðru lagi er merkilegt að ekki skuli fleiri hafa sagt já þar sem þess var vandlega gætt í könnuninni að geta ekkert um verð á húsinu. Í þriðja lagi efa ég að margir hefðu sagt já ef spurt hefði verið hvort menn vildu greiða tvöfalt verð fyrir slíkt hús. Er meirihlutinn e.t.v. til í að standa með okkur að almennri kynningu á “leigusamningnum” og láta fara fram skoðanakönnun meðal íbúanna, t.d. samhliða Alþingiskosningunum 8. maí.? Lesendum til fróðleiks höfum við sett samninginn á netið svo þeir sem tök hafa á geta skoðað hann þar. Netfangið er WWW.centrum.is\~kristmund Hin nýja aldamótakynslóð? Í stöðu, þar sem rök vantar, þar sem engir útreikningar hafa verið lagðir fyrir almenning svo hann geti séð hvernig sú leiga sem ég kalla okurleigu er fundin út, þegar skynsemi og málefnaleg umræða leiðir ekki að því marki sem meirihlutinn ætlar sér verður hann að grípa til þess gamalþekkta ráðs sem ég nefndi í upphafi. Meirihlutinn krækir saman höndum og segir í kór “við erum best, við erum fyrst, við erum klárust”. Til slíkrar sjálfssefjunar þarf stundum að grípa þegar allt annað þrýtur, þegar málefnastaðan er veik og þannig forðast að þurfa að horfast í augu við raunveruleikann. Í sefjuninni sem nærð er svo með dálitlu kitli að utan, frá þeim sem ekki þurfa að taka afleiðingum þessara ákvarðana, sannfærir meirihlutinn sig um að hann sé hin nýja aldamótakynslóð, framsýnin uppmáluð og þeir sem ekki samþykkja allt sem þessum snillingum dettur í hug í þessu ástandi eru bara þröngsýnir afturhaldsseggir eins og Kristmundur og Jóhann Geirdal. Því miður virðist mér að þessi vinnubrögð meirihlutans muni ekki verða okkur sú frelsun sem hann heldur. Ég óttast frekar að hinn “nýi kafli í íþróttasögu íslensku þjóðarinnar” sem Jónína talar um verði ekki glæsilegur kafli. Ég held að meirihlutinn hér í bæ sé okkar stærsti 2000 vandi um þessar mundir. Jóhann Geirdal