Fréttir

Þriðjudagur 11. júlí 2000 kl. 09:56

Æsilegur eltingarleikur

Hávær sírenuhljóð, blá ljós og ofsaakstur upp Hafnargötuna, raskaði ró grandalausra bæjarbúa um hádegisbilið á laugardag. Tveir lögreglubílar voru í eltingarleik við mann á miðjum aldri, sem hafði greinilega ekki hug á að stöðva bifreið sína. Af þessu skapaðist mikil hætta fyrir vegfarendur, og mátti litlu muna að illa færi. Forsaga málsins er sú að umræddur maður fór í Apótek Keflavíkur og vildi fá afgreidd lyf eftir lyfseðli sem ekki var í gildi. Þegar afgreiðslufólk neitaði að afhenta honum lyfin varð hann mjög æstur og var með hótanir við fólkið. Hringt var á lögreglu, sem fór á staðinn en þá var maðurinn horfinn á brott. Skömmu síðar barst annað útkall frá apótekinu, vegna sama manns, sem var þar staddur sömu erinda og áður, og var hann mjög æstur. Lögreglan fór aftur á staðinn, en þá var hann farinn. Lögreglumenn tóku síðan eftir manninum við Sparisjóðinn í Keflavík og gáfu honum merki um að stöðva bifreiðina. Hann gerði það ekki, heldur gaf í og ók eins og vitstola væri um allan bæ. Bíltúrinn endaði í Háholtinu, en þar var maðurinn handtekinn og sýndi hann nokkurn mótþróa við handtökuna. Hann var færður í fangageymslur lögreglunnar í Keflavík þar sem hann var yfirheyrður, en sleppt að henni lokinni.