Ágæt aflabrögð í Grindavík

Í vikunni hefur verið landað úr tveimur stórum línubátum á dag og hefur afli þeirra verið frá 60-80 tonn í veiðiferð. Afli netabáta hefur einnig verið að glæðast.
Það sem af er febrúarmánuði hefur 1.386 tonnum af þorski verið landað í Grindavík og 1.156 tonnum í Sandgerði, skv. bráðabirgðatölum frá Fiskistofu.
Ýsuaflinn er kominn í 669 tonn í Grindavík og 463 tonn í Sandgerði.
Efri mynd: Menn voru brosandi á bryggjunni í Grindavík í gær enda þokkalega sáttir við aflabrögð dagsins.
Neðri mynd: Full fiskikör á bryggjunni og líf og fjör við höfnina. Svoleiðis á það að vera.
VF-myndir: Ellert Grétarsson.
