Fréttir

Andaregg ungaðist „óvart“ út inni í skáp!
Föstudagur 31. maí 2002 kl. 20:15

Andaregg ungaðist „óvart“ út inni í skáp!

Ævintýrin gerast enn. Allir þekkja söguna um ljóta andarungann en andarunginn sem starfsmaður Víkurfrétta kom til bjargar í dag var bara lítill og sætur! Starfsmaður Víkurfrétta átti erindi á heimili sitt í fjölbýlishús við Heiðarholt þegar ógreinilegt tíst í fugli barst út úr skáp sem lokar af hitaveituinntakið í húsið.Okkar maður opnaði skápinn og þá blasti við honum lítill og myndarlegur ungi sem var frelsinu feginn - og var fljótur að ákveða að Hilmar Bragi Bárðarson, fréttastjóri Víkurfrétta, væri mamma sín!
Unginn var strax tekinn og reynt að gefa honum fæðu, sem tókst með herkjum. Þar sem ekki telst viðeigandi að ala upp endur í fjölbýlishúsum var haft samband við Fjölskyldu- og húsdýragarðinn í Reykjavík, sem aumkaði sig yfir okkar mann og tók ungann í fóstur.

Enginn vildi kannast við að hafa sett eggið inn í hitaveituskápinn þegar spurst var fyrir um það í fjölbýlishúsinu í dag. Ungir piltar, sem voru sakleysið uppmálað í dag, komu svo í kvöld í heimsókn til okkar manns og spurðust fyrir um ungann. Þeir höfðu tekið eggið úr andarhreiðri og sett veiðibjölluegg í staðinn. Þeir höfðu hins vegar ekki hugmynd um að eggið hafði ungast út í heitum hitaveituskápnum.

Unginn er nú í góðu yfirlæti í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum og loforð var tekið af starfsfólkinu þar um að vel yrði séð um andarungann sem skreið úr eggi í hitaveituskáp í fjölbýlishúsi við Heiðarholt í Keflavík.