Fréttir

Árið 2022 verður metár í framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli
Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
þriðjudaginn 15. mars 2022 kl. 14:16

Árið 2022 verður metár í framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli

Rekstrarafkoma af samstæðu Isavia fyrir fjármagnsliði og skatta (EBIT) á árinu 2021 var neikvæð um 4,7 milljarða króna samanborið við neikvæða rekstrarafkomu upp á 10,1 milljarð króna  árið 2020. Áhrifa kórónuveirunnar gætti enn verulega á rekstur félagsins þrátt fyrir mikinn viðsnúning á fyrri hluta ársins en tekjur jukust um 6,1 milljarða króna eða 41% samanborið við árið á undan. 

Sé tekið mið af árinu 2019 nam tekjusamdrátturinn árið 2021 um 46% fyrir samstæðu Isavia en 72% ef í rekstri móðurfélagsins sem sinnir rekstri Keflavíkurflugvallar. Farþegum um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 58% milli ára og voru þeir 2,2 milljónir árið 2021 samanborið við 1,4 milljónir árið á undan.

Heildarafkoma ársins var hún jákvæð um 321 milljónir króna samanborið við neikvæða afkomu um 13,2 milljarða króna árið 2020. Stóran hluta þeirrar breytingar má rekja til jákvæðra gengisáhrifa vegna langtímalána í erlendum gjaldmiðlum og einskiptis vaxtatekna.

„Þrátt fyrir að áhrifa kórónuveirunnar hafi gætt verulega  í rekstri flugvalla og flugleiðsöguþjónustu hjá okkur á síðasta ári má segja að árið 2021 hafi markað ákveðin tímamót,“ segir Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia. „Þau flugfélög sem flugu til Keflavíkurflugvallar árið 2019 snéru aftur og með afnámi sóttvarnarráðstafana á landamærum Íslands má segja að síðustu hindruninni sem eftir stóð hafi verið hrundið úr vegi. Við finnum fyrir miklum áhuga á Íslandi frá okkar flugfélögum og þrátt fyrir að kórónuveiran hafi enn  áhrif á líf okkar allra þá þarf ekki mikið að gerast til að við förum fram úr þeim  forsendum sem spár gefa til kynna um fjölda farþega á þessu ári. Við sjáum ekki enn hver áhrif stríðsins  í Úkraínu kunna að verða á ferðalög farþega til og frá Íslandi en fylgjumst auðvitað vel með stöðu mála.“

Uppbygging Keflavíkurflugvallar gengur vel og það er útlit fyrir að 2022 verði metár þegar kemur að framkvæmdum á flugvellinum.

„Uppbyggingin mun gera okkur kleift að taka enn betur á móti sívaxandi fjölda farþega á næstu árum og auka samkeppnishæfni Keflavíkurflugvallar. Það mun styðja við fjölgun flugtenginga sem er lykilatriði þegar kemur að lífsgæðum og velsæld á Íslandi,“ segir Sveinbjörn. „Framkvæmdir eru að mestu enn á áætlun en við finnum þó þegar fyrir áhrifum stríðsins í Úkraínu á aðfangakeðjuna í framkvæmdunum.“

Aðalfundur Isavia verður haldinn 24. mars næstkomandi og þá verður ársskýrsla félagsins fyrir árið 2021 gefin út. Ársreikning Isavia fyrir árið 2021 má lesa hér.

Lykiltölur úr ársuppgjöri Isavia 2021

  • Tekjur: 20.843 milljónir króna
  • Rekstrartap fyrir fjármagnsliði og skatta: - 3.911 milljónir króna
  • Heildarafkoma eftir skatta: 321 milljón króna
  • Handbært fé: 14.683 milljónir króna
  • Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum: 5.974 milljónir króna
  • Eigið fé í lok tímabils: 36.579 milljónir króna
  • Eiginfjárhlutfall: 41,5%