Fréttir

Atvinnuleysi 9,9% við árslok 2021
Föstudagur 4. febrúar 2022 kl. 06:15

Atvinnuleysi 9,9% við árslok 2021

Atvinnuleysi mældist 9,9% við árslok 2021 og hefur verið svipað frá því í ágúst. Þetta kom fram á síðasta fundi menningar- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar.

Alls voru 1.113 einstaklingar skráðir í atvinnuleit um áramót. Þar af 659 karlar og 464 konur.

Hæst fór atvinnuleysi í 24,9% þegar 2.717 einstaklingar voru skráðir í atvinnuleit í janúar fyrir ári síðan en atvinnuleysi dróst mikið saman um mitt ár.

„Þegar litið er yfir liðið ár, má sjá að langstærsti hluti atvinnulausra komu úr yngri aldurshópum og höfðu starfað við greinar tengdar flugi og ferðaþjónustu. Vonir standa því til þess að við göngum nú um árstíðarbundna lágtíð og atvinnuleysi muni á nýjan leik dragast saman á vormánuðum með aukinni umferð um flugvöllinn,“ segir í gögnum fundarins.