Blautur dagur framundan
Ferðahópur rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík er herskár á heimasíðu sinni, FERLIR, í garð fyrirhugaðrar kvikmyndatöku á Reykjanesskaganum þar sem á að endurgera innrás Bandaríkjamanna á Iwo Jima í seinni heimstyrjöldinni. Þar segir að ef allt heldur áfram sem horfir verður Krýsuvíkursvæðinu lokað í þrjá mánuði frá 20. júní til 20. september n.k. vegna töku Hollywood-kvikmyndarinnar Iwo Jima eða Flags of our Fathers. Þeir draga upp svarta mynd af sviðsetningu Hollywood-risans og segja svæðið í Krýsuvík eiga eftir að bera varanlegt tjón af tökum myndarinnar. Lögreglumennirnir úr Reykjavík boða hins vegar að þeir ætli sér að ganga um svæðið í sumar og láta ekki öryggisverði eða kvikmyndatökur stöðva sig. Þannig á að fara á Arnarfell og skoða ýmsar merkar minjar í sumar
Það eiga að vera skriðdrekar og önnur stríðstól á staðnum
Í grein á vef FERLIRs segir: „Mikilvægt er að vita hvað þetta verkefni felur í sér, áður en farið verður af stað. Svæðið þolir ekki átroðning mörg hundruð manna í þrjá mánuði, hvað þá umferð stórvirkra tækja sem hljóta að koma að þessu sömuleiðis. Það eiga að vera skriðdrekar og önnur stríðstól á staðnum, það þarf að koma þungum og dýrum tökuvélum, krönum og rám og þess háttar búnaði langt út á heiði og allt í kringum Arnarfellið ef skilja má tökuteikningarnar rétt. Það á að framkalla margháttaðar sprengingar þar sem jarðvegi verður þyrlað upp í loftið. Ætlunin er jú að setja allt í samt far á ný, en er hægt að halda því fram í alvöru að menn ætli að halda efninu til haga sem þyrlast upp úr holunum og loka sprengigígunum með þessu efni. Það verður býsna erfitt að leita uppi kornin sem eiga eftir að dreifast víða. Grafa á skotgrafir og margt fleira sem kemur til. Það á að svíða svæðið – brenna allan gróður undir eftirliti slökkviliðs Hafnarfjarðar. Einhver virðist hafa fengið högg á höfuðið - og það mikið.
Iwo Jima er eyja sem er vel hægt að nýta til verksinsÞekkt er það að kvikmyndatökufólk – hversu frægt sem það nú annars er – lofar ætíð öllu fögru en það verður oft minna úr efndum, en til stóð. Það hefur aldrei vafist fyrir milljónafyrirtækjum að koma sér fyrir á afskekktum eyjum ef það þjónar verkefninu. Iwo Jima er eyja sem er vel hægt að nýta til verksins og útbúa alla þá aðstöðu sem á þarf að halda ef það er ætlunin. Svo virðist sem menn hafi verið dálítið grunnhyggnir og lokað öðru auganu þegar kom að ákvörðunartökum í þessu máli.“
Að tæta upp landið með “special effects-sprengjum”
Þá segir einnig í greininni: „Nú á að leyfa gröft á allskyns skotgröfum, að leyfa mönnum að tæta upp landið með “special effects-sprengjum” og leyfa svona mikinn átroðning, þar sem allt að 450 manns verða á staðnum þegar mest lætur og jafnvel fleiri. Það kostar töluvert rask að leyfa uppsetningu búða, lagningu vega og fleira sem fylgir. Hvað með rotþrær og fleira í þeim dúr. Tökufólkið þarf að geta komist langt út á Krýsuvíkurheiði samkvæmt meðfylgjandi skotlista og átroðningur á Arnarfellið og nærumhverfi Krýsuvíkur verður örugglega mun meiri en sett er fram í meðfylgjandi gögnum. Þetta er í rauninni stórmál.
Af hverju er þessi mynd ekki tekin á Iwo Jima í Kyrrahafinu, þar sem atburðirnir áttu sér stað? Getur verið að menn þar um slóðir vilji ekki endurtaka skemmdirnar á landinu sem mun óhjákvæmilega fylgja þessari myndatöku og undirbúningi hennar?“
Ráða öryggisverði til að koma í veg fyrir að fólk komist um svæðiðOg greinarhöfundur heldur áfram: „Það koma fleiri þúsund manns á hverju sumri í Krýsuvíkurkirkju, útlendir og innlendir ferðamenn sem eru heillaðir yfir þessum einangraða stað í nágrenni mesta þéttbýlissvæðis landsins. Það þarf mjög lítið til að gera þessa vinnu að engu og líklegt má telja að “innrás” bandarískra og íslenskra kvikmyndatökumanna í svona langan tíma muni hafa skaðvænleg áhrif til langs tíma litið. Eitt af því sem beðið er um er mikil takmörkun á umferð um svæðið. Það á að ráða öryggisverði til að koma í veg fyrir að fólk komist um svæðið, sem á að verða lokað í allt að þrjá mánuði þegar við, ferðaþjónustan, nýtir svæðið sem mest og hinn almenni ferðamaður er það helst á ferð.
Ætlunin er að tæta svæðið upp og eyða þeim viðkvæma gróðri sem er þar nú
Ætlunin er að tæta svæðið upp og eyða þeim viðkvæma gróðri sem er þar nú þegar svo hægt verði að endurskapa ömurleika stríðshrjáðs landsvæðið sem búið er að sprengja í tætlur. Það á sem sagt að gera allt til að þjóna hagsmunum þessarar stríðsmyndar, endurskapa atburði sem áttu sér stað hinu megin á hnettinum og hafa ekkert með Ísland, íslenska sögu, náttúru, menningu eða mannlíf að gera. Þó þetta geti skapað vinnu fyrir nokkra Íslendinga í stuttan tíma verður ekki séð af hverju fórna á Krýsuvík og Arnarfelli á þennan hátt.
Það lokar enginn á FERLIR
Það lokar þó enginn FERLIRsþátttakendur úti af Krýsuvíkursvæðinu í sumar. Þeir munu fara þangað og ganga um svæðið svo sem þeir kæra sig um, enda ekki hægt að sjá hver hafi heimild til að loka því, leyfa um leið skemmdir á umhverfinu, eyðingu minja og röskun á náttúru og á hvaða forsendum. Sá, sem leyfir, ber og ábyrgð. Hver og hvar er ábyrgðaraðilinn?“Sérhverjum manni var gefið höfuð og allt sem í því býr
Þá segir að endingu í greininni á vef FERLIRs: „Ef FERLIRsþátttakendur, jafnvel stór hópur, ætla á Arnarfell tiltekinn dag í sumar, t.d. til að skoða Eiríksvörðu, Arnarfellsbæinn, Arnarfellsréttina, Stínuskúta, minjarnar við Arnarfellsvatn eða vörðurnar yfir Kókamýri, þá fara þeir þangað. Hvorki skáti né skotliði gætu komið í veg fyrir það. Slík átök gætu orðið söguleg; óraunveruleiki kvikmyndarinnar og gróðaöflin annars vegar og þjóðararfurinn og umhyggjuöflin fyrir landinu hins vegar. Það skiptir máli hvar „Fánar feðranna“ blakta og fyrir hvað. Sérhverjum manni var gefið höfuð og allt sem í því býr. Nú reynir á að nota innihaldið af skynsemi.“
(Greinin er stytt af Víkurfréttum og millifyrirsagnir eru blaðsins).
Hér má lesa greinina á Ferlir.is í heild sinni: http://www.ferlir.is/?s=news_advanced&naid=2461