Boeing „bumba“ Atlanta lenti í Keflavík
Boeing 747 400 breiðþota Atlanta flugfélagsins lenti í Keflavík í morgun. Vélin var að koma frá Bandaríkjunum en er á leiðinni til Saudi Arabíu en þar mun hún fljúga með þúsundir pílagríma næstu þrjá mánuðina.
Atlanta flugfélagið er með 17 Boeing 747 risaþotur í sinni starfsemi en þær eru oft nefndar „bumbur“ en ellefu slíkar munu sinna pílagrímaflugi frá miðjum september fram í desember. Þeir Stefán Eyjólfsson og Hannes Hilmarsson, tveir af forráðameönnum flugfélagsins sögðu að þessi starfsemi væri stór þáttur í rekstri félagsins. Hjá Atlanta starfa 275 manns en samtals vel á annað þúsund manns þegar mest er að gera í pílagrímaflugi félagsins. Rekstur Atlanta er allur í útlöndum en auk pílagrímaflugs sinnir Atlanta einnig fragtflugi. Allar vélar félagsins eru skráðar á Íslandi.
Fjöldi starfsmanna Atlanta kom á Keflavíkurflugvöll til að skoða vélina en þetta mun vera í fyrsta sinn sem 747 400 vél frá Atlanta lendir í Keflavík. Hún er með um 500 sæti fyrir farþega á tveimur hæðum.
Vélin lenti í Keflavík á tólfta tímanum í morgun.
Vélin er merkt Saudi Ariabian flugfélaginu sem leigir hana í pílagrímaflug.
Séð inn í flugstjórnarklefann. Vélin tekur um 500 farþega.
Stefán Eyjólfsson og Hannes Hilmarsson, forráðamenn Atlanta á Keflavíkurflugvelli í morgun.