Brennuvargur í tveggja vikna gæsluvarðhald
Hælisleitandi sem grunaður var um íkveikju á Fit-Hostel á mánudag hefur verið úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald. Maðurinn viðurkenndi við yfirheyrslu að hafa orðið valdur að brunanum í sínu eigin herbergi. Frá þessu er greint á fréttavef Vísis. Lögregla hefur óskað eftir að hann verði látinn sæta geðrannsókn, en dómari hefur ekki tekið afstöðu til þess.
Honum er þó haldið áfram í varðhaldinu, á þeim grundvelli að með því sé verið að tryggja öryggi annarra dvalargesta á gistiheimilinu. Töluvert tjón varð á húsnæðinu og hafa iðnaðarmenn unnið hörðum höndum að lagfæringum síðan.