Breytingar í flugturninum í Keflavík
Unnið er að uppsetningu aðflugsstjórnar fyrir Reykjavíkurflugvöll og Keflavíkurflugvöll í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík en hún er nú í flugturninum á Keflavíkurflugvelli. Reiknað er með að aðflugsþjónusta hefjist í flugstjórnarmiðstöðinni snemma á næsta ári að fengnu samþykki Samgöngustofu.
Breytingin hefur verið kynnt starfsmönnum en hún er liður í ferli sem hófst með sameiningu Flugstoða ohf. og Keflavíkurflugvallar ohf. árið 2010 og leiðir til meira rekstraröryggis, sveigjanleika og bættrar þjónustu. Umtalsverðar breytingar eru að verða á framkvæmd flugleiðsöguþjónustu með samræmingu leiðarflugs- og aðflugsferla með náinni tengingu aðflugsstjórnar við starfsemi flugstjórnarmiðstöðvar fremur en flugturns.
29 flugumferðarstjórar starfa að jafnaði í flugturninum á Keflavíkurflugvelli við turnþjónustu og aðflugsstjórn og eru 20 þeirra búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Hefur öllum starfsmönnum með aðflugsréttindi verið boðið að óska eftir flutningi milli starfsstöðva en áætlað er að eftir breytinguna verði um 16 flugumferðarstjórar við störf í flugturninum. Færsla aðflugsstjórnar til flugstjórnarmiðstöðvar veitir aukinn sveigjanleika í skipulagi vinnutilhögunar en búseta starfsmanna fjarri vinnustað skapar umtalsvert óhagræði í rekstri í flugturninum í Keflavík.
Breyting sjálf mun hafa nokkurn byrjunarkostnað í för með sér sem reiknað er með að náist til baka á tveimur árum og skila ávinningi í rekstraröryggi, sveigjanleika og bættri þjónustu, segir í svari Isavia við fyrirspurn Víkurfrétta um málið.