Fréttir

Dreginn til hafnar með veiðarfæri í skrúfunni
Föstudagur 28. nóvember 2003 kl. 16:47

Dreginn til hafnar með veiðarfæri í skrúfunni

Muggur GK70 fékk veiðarfærin í skrúfuna í gærdag og óskuðu skipverjar eftir aðstoð björgunarsveitarinnar Sigurvonar í Sandgerði um klukkan 18 í gær. Jóhann Jónsson skipverji á Muggi hafði þá reynt að skera sjálfur úr skrúfunni. „Ég fór í sjóinn í björgunargalla og reyndi að skera línuna úr skrúfunni, en það gekk ekki þannig að við kölluðum á björgunarsveitina. Það versta við þetta er að við erum með hálfa línuna í sjó,“ sagði Jóhann í samtali við Víkurfréttir.

Kafari frá björgunarsveitinni reyndi einnig að skera úr skrúfu bátsins, án árangurs og var báturinn því dreginn til hafnar í Sandgerði. Björgunarbátur frá Sigurvon var í rúma fjórar klukkustundir að draga bátinn til hafnar, en Muggur var staddur um 20 sjómílur norðvestur af Sandgerði þegar veiðarfærin fóru í skrúfun.

 

VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Skipverjar á Muggi við komuna til hafnar í Sandgerði í gærkvöldi.