Eldavél notuð til að loka hliðinu að Rockville
Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli beitir nýstárlegum aðferðum við að loka hliðinu að Rockville, gömlu ratsjárstöðinni á Miðnesheiði.
Hliðinu hefur verið lokað með gamalli eldavél og dekki ásamt hringlaga gaddavír. Vírinn hefur verið þarna frá lokun Rockville en töluvert auðvelt er að færa hann frá. Varnarliðið hefur þess vegna brugðið á það ráð að setja eldavél fyrir hliðið svo ekki sé hægt að opna það. Eldavélin ásamt annarri búslóð, sem er á víð og dreif um svæðið, er hluti af eignum Varnarliðsins og Byrgisins sem skilið var eftir þegar svæðið var yfirgefið.
Mikill munur er á gæslu ratsjárstöðva á Reykjanesi en til að mynda er öflugt stálhlið við ratsjárstöðina í Grindavík en Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli nýtir hana ennþá. Það hlið er opnað með einhvers konar fjarstýringu.Stefnt er að því að rífa Rockville en Varnarliðið hefur ekki haft fjármagn í það verkefni undanfarin ár en virðist þó einhver breyting vera þar á því búið er að bjóða verkefnið út.
Íslenska ríkið mun að öllum líkindum taka út landið sem Varnarliðið hyggst skila en svæðið þarf að vera vel hreinsað að hálfu Varnarliðsins því Asbest var notað við byggingu húsanna á Rockville svæðinu.
Hvað er asbest?
Asbest er steinefni sem finnst í jarðlögum víðs vegar um heiminn, en er mjög sjaldgæft á Íslandi. Við brot á asbesti verður það trefjakennt. Trefjarnar geta klofnað auðveldlega í fína þræði sem geta borist inn í líkamann um öndunarfæri eða meltingarveg. Þræðir þessir eru það smáir að það þarf smásjá til að hægt sé að greina þá, og því verður fólk ekki vart við ef það andar að sér efninu. Ef asbest kemst inn í líkamann þá getur líkaminn ekki brotið það niður. Líkaminn reynir því að mynda bandvefshimnu í kringum þræðina sem síðar getur leitt til krabbameins og annarra skaðlegra sjúkdóma. Asbest er hins vegar ekki skaðlegt NEMA er ryk eða þræðir berist frá því, það sé morkið eða asbest- einingar hafi skemmst.
Tekið af vef Byggingarfélagsins Baulu
VF-myndir: Atli Már Gylfason