Fréttir

Eldflaugarskot frá Vigdísarvöllum á laugardaginn
Fimmtudagur 16. nóvember 2006 kl. 09:36

Eldflaugarskot frá Vigdísarvöllum á laugardaginn

Til stendur að skjóta upp eldflaug frá Vigdísarvöllum næstkomandi laugardag.
Um er að ræða tilraunaskot á vegum A.I.R,  áhugamannfélags um eldflaugar og eldflaugaskot á Íslandi. Að verkefninu standa þrír ungir menn, þeir Magnús Már Guðnason, Smári Freyr Smárason og Steinn Hlíðar Jónsson.

Smíði eldflaugarinanr Air 203 hefur staðið yfir undanfarna sex mánuði, skv. því sem fram kemur á heimasíðu félagsins.  Þar segir að leyfi sé komið frá bæjarstjóranum í Grindavík, Flugumferðarstjórn, Landbúnaðarráðuneytinu og Reykjanes fólksvangi þannig að ekkert er því til fyrirstöðu að skotið fari fram á laugardaginn klukkan 13, svo framarlega að veðrið setji ekki strik í reikninginn.

Flaugin er 203 cm á hæð og 63 mm í þvermál og vegur um 5 kg. Hún mun ná allt upp í 1200 metra hæð og allt að 600 km/klst. Eldflaugin fer þessa 1200 metra á aðeins 15 sekúndum og eftir aðeins 0,5 sekúndur mun hún ná hámarkshraða eða um 600 km/klst. Í efstu stöðu, þ.e. í 1200 metrum, skýst út fallhlíf og fellur þá flaugin á um það bil 20 km hraða til jarðar. Allt ferlið tekur um það bil 2-3 mínútur en það fer þó nokkuð  eftir því hversu mikill vindhraðinn verður, segir á heimasíðu félagsins.

Vefsíða félagsins er á slóðinni  www.eldflaug.com fyrir þá sem vilja kynna sér verkefnið betur og fylgjast með framvindunni, t.d. ef breytingar verða vegna veðurs eða annars.

 

Mynd af eldflauginni á heimasíðu A.I.R.