Fréttir

Endalok skurðstofa á sjúkrahúsinu?
Miðvikudagur 20. febrúar 2013 kl. 09:56

Endalok skurðstofa á sjúkrahúsinu?

-hugmyndir um að nýta plássið fyrir heilsugæsluna eða annað

Við höfum verið með lokaðar skurðstofur í tæp þrú ár. Það hefur ekki verið áhugi á að flytja aðgerðir eða fjármagn til okkar frá t.d. Landsspítalanum,“ segir Sigríður Snæbjörnsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja um þá hugmynd að rífa niður tvær skurðstofur og nýta plássið fyrir aðrar starfsemi HSS.

Að sögn Sigríðar er mikilvægt að setja hlutina í samhengi. Ekki aðeins hafi skurðstofurnar á HSS verið lokaðar í þrjú ár heldur hafi starfsfólk skurðstofanna ekki sýnt áhuga á að flytja sig til okkar en þær verða ekki reknar án sérhæfðs starfsfólks eins og svæfingalækna, skurðstofuhjúkrunarfræðinga og svæfingahjúkrunarfræðinga ásamt skurðlæknum.  

„Við komumst nálægt því að leigja skurðstofurnar rétt fyrir hrun eftir miklar umræður við fyrrverandi ráðherra sem voru því mótfallnir, því núverandi velferðarráðherra tók vel í hugmyndina en þá var það orðið of seint, tækifærið var flogið okkur úr greipum. Síðasta svar frá starfsmanni ráðuneytisins þegar ég spurði hvort við stæðum frammi fyrir því að rífa niður sérpantaðar innréttingar fyrir tugi milljóna var „að kostnaðurinn væri nú ekki meiri en einn mánuður í rekstri hjá okkur“. Til að allt sé á hreinu að þá liggja engar ákvarðanir fyrir þessa stundina um að rífa niður skurðstofurnar en þetta er einn af möguleikunum sem við stöndum frammi fyrir. Við myndum öll fagna því ef hægt væri að nýta skurðstofurnar okkar af einhverri skynsemi, þá á ég við að nýting væri eðlileg þannig að öll yfirbygging væri verjandi og fjárveitingar til reksturs væru tryggðar.

Það er dýrt að láta verðmætt húsnæði standa autt árum saman, tæki sem þar eru úreldast hratt og verða verðlítil auk þess sem okkur vantar húsnæði fyrir heilsugæsluna og aðra starfsemi,“ sagði Sigríður.

SSS
SSS