Sunnudagur 9. febrúar 2003 kl. 23:17
Engin aðvörun frá Almannavörnum

Almannavarnir hafa ekki sent aðvörun til lögreglunnar í Keflavík vegna veðurofsans sem spáð er með morgninum. Að sögn Skúla Jónssonar varðstjóra hjá lögreglunni í Keflavík hefur hann ekki heyrt af sérstökum viðbúnaði björgunar- eða hjálparsveita. Samkvæmt veðurspá er gert ráð fyrir allt að 10 gömlum vindstigum eða 28 sekúndumetrum snemma í fyrramálið. Í fréttum í dag var fólk beðið að fergja lausa muni og vera ekki á ferðinni að óþörfu meðan versta veðrið gengur yfir.Víkurfréttir verða með sérstaka veðurvakt frá því snemma í fyrramálið, mánudagsmorgun. Ljósmyndarar VF verða á ferðinni og fluttar verða fréttir hér á netinu af framvindu veðursins. Þá eru ljósmyndarar búnir tækjum til að senda myndir beint af vettvangi inn á vefsíðu blaðsins ef þörf krefur. Fylgist því vel með veðrinu á Víkurfréttum á Netinu.
Myndin: Blaðamenn VF við stjórnborð Víkurfrétta á Netinu. Þeir byrja daginn snemma í fyrramálið. VF-mynd: Páll Ketilsson