Fara á forgangsbiðlista

Reykjanesbær seldi í sumar 9 félagslegar leiguíbúðir við Hringbraut vegna þess að þær þóttu orðið óhagstæðar og viðhaldsfrekar. Hjördís Árnadóttir, félagsmálastjóri, segir að þeir íbúar sem óska eftir að vera áfram leigjendur í félagslega kerfinu og falla undir reglur þar að lútandi, fari á svokallaðan forgangsbiðlista.
Hjörtur Zakaríasson, bæjarritari, segir að hlutverk Fasteigna Reykjanesbæjar ehf sé að reka félagslegt íbúðarhúsnæði, einnig að kaupa og selja íbúðir. Félagið hafi á undanförnum árum selt óhagstæðar og viðhaldsfrekar íbúðir. Keyptar hafi verið þrjár íbúðir síðan þær við Hringbrautina voru seldar en þær komi ekki sérstaklega í stað þeirra sem seldar voru. Hjörtur segir að í raun komi engar íbúðir í staðinn en félagið muni halda áfram að selja og kaupa íbúðir til þess að koma viðhaldsmálum í æskilegt horf.