Fréttir

Fimmtudagur 9. janúar 2003 kl. 17:03

Fátækt í Reykjanesbæ: 54 fjölskyldur leituðu til Rauða Krossins

Fyrir síðustu jól leituðu 54 fjölskyldur á Suðurnesjum til Suðurnesjadeildar Rauða Krossins og óskuðu eftir aðstoð. Stefanía Hákonardóttir framkvæmdastjóri deildarinnar sagði í samtali
við Víkurfréttir að Rauði Krossinn væri líknarfélag sem fólk gæti leitað til í erfiðleikum sínum: “Fólk sem minna má sín getur leitað til okkar fyrir jólin og við reynum að aðstoða það eftir fremsta megni. Við gáfum þeim fjölskyldum sem leituðu til okkar 15 þúsund króna matarmiða í Samkaup svo þau gætu keypt jólamatinn og haldið gleðileg jól. Verslunarmannafélag Suðurnesja styrkti okkur og gerði okkur það kleift að geta útdeilt þessum miðum."
Stefanía segir að þau finni fyrir lítilli aukningu á því að fólk leiti til þeirra fyrir jólin milli ára: “Það hefur einhver aukning orðið en ekki mikil. Hins vegar höfum við fundið fyrir aukningu á því
að atvinnulausir leiti sér aðstoðar. Þeir hópar sem mest leita til okkar eru öryrkjar, einstæðar mæður með börn á framfæri og fólk sem er atvinnulaust," segir Stefanía að lokum.