Fimleikahúsi frestað
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur komist að samkomulagi við Fimleikadeild Keflavíkur, FK, vegna aðstæðna í samfélaginu, um að seinka byggingu fimleikahúss. Bæjarráð samþykkir hins vegar að styrkja FK um kr. 5.000.000,- til búnaðarkaupa og kr. 700.000,- vegna nauðsynlegs viðhalds á tækjum.
Fimleikadeild Keflavíkur er að vinna gott starf fyrir bæði unga sem aldna í bæjarfélaginu. Árleg jólasýning deildarinnar þar sem salir íþróttahússins fyllast og fleiri hundruð iðkendur sýna listir sýnar eru staðfesting á öflugu starfi deildarinnar. Það voru miklar vonir bundnar við nýtt fimleikahús þar sem aðstaða deildarinnar hefði gjörbreyst.
En fimleikadeildin er ekki af baki dottin, hún gaf út í fréttabréfi á dögunum að deildin muni leggja sitt að mörkum til að byggja upp öryggi og vellíðan barnanna vegna ástandsins í landinu. FK ætlar þess vegna að draga úr öllum kostnaði sem snýr að þátttöku í mótum og viðburðum á vegum félagsins og skiptir þá vinnuframlag og stuðningur foreldra miklu.
Hjá Fimleikadeild Keflavíkur æfa sér til ánægju, auk fjölda stúlkna og drengja í hefðbundnum fimleikum, um 30 konur á aldrinum 18 til 50 ára. Fimleikar fyrir fullorðna er nýjung hjá deildinni og er mikið fjör á æfingum að sögn iðkenda. Drengjum hefur fjölgað í byrjendafimleikum, trompfimleikum og síðan er hópur stráka sem stunda götuhlaup og eru farnir að kíkja í salinn hjá deildinni.
Formaður deildarinnar er Sveinbjörg Sigurðardóttir og varaformaður Eva Björk Sveinsdóttir.
Hópur sprækra kvenna í fimleikum fyrir fullorðna hjá FK.