Fréttir

Fjárfestingar í atvinnumálum eru ekki bruðl
Fimmtudagur 21. apríl 2011 kl. 18:19

Fjárfestingar í atvinnumálum eru ekki bruðl

-Árni Sigfússon fer yfir stöðu mála hjá Reykjanesbæ og lítur yfir farinn veg á tæpum áratug í bæjarstjórastóli.

Hann kom til Reykjanesbæjar fyrir tæpum áratug og fékk sparisrúnt um bæinn með nokkrum sjálfstæðismönnum sem vildu fá hann sem næsta bæjarstjóraefni. Þó sparirúnturinn hafi ekki sagt nema litla sögu af bæjarfélaginu og Árni og fjölskylda hafi ekki verið alveg jafn sannfærð í næsta bílrúnti um bæinn þar sem malargötur og fleira óskemmtilegt hafi birst fjölskyldunni þá lét hann til skarar skríða og tók tilboði sjálfstæðismannanna í Reykjanesbæ um að koma í bítlabæinn.

Hann fékk fljúgandi start og stýrði sjálfstæðismönnum til stærstu sigra í næstu tveimur bæjarstjórnarkosningum og vann svo þann þriðja í kosningunum í fyrra, þeim fyrstu eftir kreppu.

Fyrstu sex, sjö árin fyrir kreppu voru glanstímabil hjá bæjarstjóranum og hans félögum í meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar en svo kom kreppan með tilheyrandi skelli og leiðindum. Erfiðir tímar tóku við og nú berst bæjarstjórinn á hæl og hnakka í atvinnuuppbyggingu, skólamálum, atvinnuleysi og erfiðri baráttu við ríkisstjórn sem vill lítið við hann sælda.

Hann hefur hitt bæjarbúa að undanförnu á íbúafundum sem hann hefur haldið frá því hann gerðist bæjarstjóri. Víkurfréttir fengu klukkutíma með kappanum síðasta laugardag og röktu úr honum garnirnar eins og sagt er.



Hver er staða bæjarfélagsins í dag?

Það var að koma nýr ársreikningur í hús og niðurstaðan er mjög ásættanleg, 639 millj. kr. hagnaður hjá bæjarsjóði eftir fjármagnsliði og afskriftir og 322 milljón króna hagnaður á samstæðunni. Upphæð sem við getum notað til að styrkja lausafjárstöðu og greiða niður skuldir. Það er öllum ljóst að sveitarfélagið hefur farið í miklar fjárfestingar, sérstaklega í Helguvík. Framkvæmdir sem eru enn ekki að skila okkur fjármunum til baka. Við bíðum enn eftir því. Það þýðir að þetta er enn erfiður rekstur. Þess vegna er mikilvægt að geta sýnt hagnað í þessu árferði þar sem erfitt er að fjármagna hluti. Það má heldur ekki gleyma því að Reykjanesbær á miklar eignir og ég hef verið að kynna það á íbúafundunum. Samsetning eigna sveitarfélaga er misjöfn. Mörg sveitarfélög á Íslandi gera ekkert annað en að veita þessa lögbundnu þjónustu sem felst í grunnskólum, félagsþjónustu, þjónustu við íþróttir og menningu, gatnagerð og fleira mætti nefna. Reykjanesbær á mikið af eignum umfram þessa lögbundnu þjónustu. Þar má t.d. nefna Helguvík. Þar erum við núna að fá hálfan milljarð í tekjur af einni lóð. Við erum að fá á ári um 80 milljónir í hafnargjöld frá 2013 þegar kísilverið fer af stað og 50 milljónir í fasteignagjöld þannig að þetta eru stórar tölur sem eru að koma þarna inn. Við eigum Hitaveitu Suðurnesja, HS Veitur, 67% eignarhlut í þeim. Við eigum skuldabréf sem nú eru komin í yfir 8,3 milljarða króna sem við erum auðvitað að huga að sölu á. Þannig að þetta eru tækifæri sem við bendum á en við erum ekki að tala um að selja þetta allt saman. Aðrir settu peninga af sölu á HS á bankabók, við settum þá í HS Veitur og skuldabréf.


Hverju svararðu þessari gagnrýni hjá minnihlutanum í dag um að þið hafið framkvæmt allt of mikið, tekið nánast allt að láni og farið langt fram úr ykkur í framtíðardraumum og rándýrri uppbyggingu.


Þegar bæjarfélag á ekki fjármuni til nauðsynlegrar og arðbærrar uppbyggingar, þá byggir fjárfestingin á lánum. Við höfum ítrekað lagt fram framtíðarsýn og fengið stuðning meirihluta bæjarbúa fyrir henni. Mér þykir alltaf leitt að einhverjir okkar manna hér í bæjarfélaginu, þá yfirleitt minnihlutinn í bæjarstjórn, eru ekki að vinna með okkur í atvinnuuppbyggingu og eru ekki að trúa á þau verkefni sem við erum að vinna að. Þó álver sé mikið til umræðu og við höfum sannarlega barist mikið fyrir því, þá er hægt að nefna kísiliðjudæmið, uppbyggingu á Ásbrú, gagnaverið, sjúkrahúsið, jarðauðlindagarð á Reykjanesi og Keili. Þetta eru allt stór verkefni sem við höfum verið að vinna að og auðvitað leggja til fjármuni í með einum eða öðrum hætti. Ef menn tala um bruðl væri mjög gott að fá að vita hvaða bruðl það er. Ef það er bruðl að leggja í atvinnufjárfestingu, ef það er bruðl að byggja Akurskóla, bæta umhverfi og aðstöðu til menningar og listastarfsemi þá er ég einfaldlega ekki sammála. Hins vegar er ég alveg sammála um það þegar við horfum nú yfir góðærið, skyndilegt brotthvarf varnarliðsins og hruntímabilið þá hefðum við gert margt öðruvísi nú. Það er bara eðlilegt að viðurkenna það og auðvitað hefðum við ekki farið í uppbyggingu ákveðinna hverfa hefðu menn gert sér grein fyrir framhaldinu. Við hefðum til dæmis mjög líklega endurskoðað ákvarðanir okkar um hverfauppbyggingu hefðum við vitað að varnarliðið væri að fara og við værum að taka við 1800 íbúðum árin 2006-2007. Þannig að þetta hefur allt sínar skýringar. Það er eðlilegt að gagnrýna og maður verður að hlusta á það. Sumt á rétt á sér en varðandi fullyrðingar um bruðl í framkvæmdum hef ég einfaldlega spurt hvað það sé? Hvaða dæmi eru það sem eru svona hræðilega stór og mikil og út í hött að þau séu að hafa alvarleg áhrif á þessa stöðu okkar. Við höfum fjárfest í atvinnulífinu. Við höfum fjárfest í innri gerð samfélagsins, skóla- og umhverfismálum.



Skuldir hafnarinnar hafa verið mikið í umræðunni, hvað segirðu um stöðuna þar. Þetta er eitt af því sem að minnihlutinn hefur verið að hamra á ykkur með fyrir skuldastöðuna.


Þetta er  stóri pakkinn í skuldunum, fjárfestingin í höfninni, 5,3 milljarðar og höfnin er engan veginn að standa undir því að greiða afborganir af þessari tölu. Þannig að skuldin vex ef ekki koma til rekstrartækifærin sem við höfum stefnt á, eins og kísilverið. Þá förum við að hafa upp í þennan kostnað. Það fer ekkert á milli mála að það er uppbyggingin sem kemur á undan atvinnunni. Það þarf að fjárfesta í atvinnulífinu og höfnin er svo sannarlega gríðarlega stórt tækifæri. Það sem er að valda okkur vanda eru þessar tafir því að peningarnir sitja ekki án ávöxtunar hjá lánveitendum. Flest af þessum verkefnum sem við höfum verið að vinna með höfnina hafa verið fjármögnuð með skammtímalánum og það var einfaldlega ekki búið að færa þau yfir í langtímalán þegar kreppan skall á. Allir eru á því að þetta sé mjög gott verkefni og lífeyrissjóðirnir og aðrir tilbúnir að lána með mjög jákvæðum hætti. Svo skellur kreppan á og það er erfitt að fá langtímafjármögnun og það er erfitt að fá lífeyrissjóði að borðinu nema með því að gera fulla grein fyrir stöðunni. Þá fundum við auðvitað fyrir þessari vantrú, hún hefur sem sagt breitt úr sér og menn voru ekkert sannfærðir um að það væri eitt eða neitt að gerast í Helguvík og þar með kemur þetta hik. Vonandi erum við nú að sýna fram á hvernig þessi verkefni skila árangri og þá munu lífeyrissjóðirnir og þeir sem hafa verið að lána okkur vonandi framlengja og semja við okkur áfram. Það er það sem er í gangi núna.


Nú hefur verið talsvert talað um erfiða stöðu bæjarfélagsins og verið nokkuð vond umræða um bæjarfélagið eftir kreppu. Þið hafið þurft að grípa til aðhaldsaðgerða, meðal annars að minnka starfshlutfall. Við heyrðum í starfsmanni fyrir nokkru síðan á bæjarskrifstofunni sem sagði að mórallinn væri ekki góður. Hvað segir þú um það, þetta hlýtur að hafa verið erfiður tími?


Já, já, þetta hefur auðvitað verið erfiður tími fyrir alla sem eru að taka á sig svona skerðingar. Við lögðum áherslu á það að lækka kostnað, sérstaklega í stjórnsýslunni. Það hefur auðvitað verið erfitt fyrir margan starfsmanninn þar og víðar en ég hef reyndar sagt á móti að það er betra að hafa starf í dag heldur en ekki. Við höfum þess vegna lagt áherslu á að allir taki þátt í þessu með því að skerða laun og skerða starfshlutfall og ég held að það hafi tekist mjög vel. Ég heyri það hjá öðrum sveitarfélögum að þau eru mikið að spyrja okkur hvernig þetta hafi verið því að í raun og veru hefur þetta gengið ágætlega. Starfsandi er góður hér en þetta var erfitt um áramótin og í kringum þann tíma þegar þetta var allt að gerast eins og menn þekkja í öðrum fyrirtækjum. Það er ekkert skemmtiefni að standa í svona hagræðingum og því eðlilegt að það hafi eitthvað komið niður á starfsandanum á einhverjum tíma. Ég held að flestir sem hafa þurft að fara í slíkar aðgerðir þekki það.



Talandi um Fasteign. Ertu enn sannfærður um það að það hafi verið rétt að fara þessa leið?

Já, ég er það. Við sameinuðumst, minnihluti og meirihluti um að leggja fram skýrslur og gögn um að meta reynsluna af þessu félagi, sem var fyrst og fremst til að byggja upp stórt félag sem hefði meiri getu til að fara í framkvæmdir og gera það á hagkvæman hátt. Þessar skýrslur sýna að þetta voru mjög hagkvæmar byggingar í samanburði við það sem aðrir voru að gera, það sem lítil sveitarfélög eru kannski að gera og hafa litla getu og þekkingu til að vinna það. Þetta hefur allt verið að skila sér. Þegar við skoðum leigukostnaðinn og hvernig hann hafi verið í gegnum tíðina eða frá árinu 2003, var þetta um margt hagstæðara fyrir okkur heldur en með hefðbundnum hætti. Nú hefur þetta verið að breytast í hruninu og eftir hrunið. Við höfum verið að greiða helming okkar leigu í evrum sem hefur haft mikil áhrif og þá er bara sjálfsagt að endurskoða þetta. Við höfum sagt að þetta er ekkert trúaratriði, þetta snýst bara um hvað sé hagstæðast og skynsamlegast að gera. Þess vegna höfum við nú verið að leggja fram tillögur að breytingum á Fasteign. Reyndar líka vegna þess að það eru ákveðnir aðilar inni í okkar félagi sem hafa átt mjög erfitt, Háskólinn í Reykjavík hefur ekki haft möguleika á að greiða þá leigu sem hann á að greiða. Álftanes hefur heldur  ekki getað greitt. Þetta  hefur auðvitað komið niður á félaginu þó að sjóðsstreymi hafi alveg staðist. Nú erum við í endursamningum við bankana og erum að skoða með hvaða hætti Fasteign getur starfað og hvaða breytingar verði gerðar þar á.  Við leiðum þá vinnu.


Sérðu Fasteign fyrir þér áfram?


Já, alveg eins, en nú eru tveir kostir skoðaðir. Annars vegar að aðilar tækju eignirnar algjörlega til baka og semdu þá beint við bankastofnanir. En við sjáum líka tækifæri til að halda þessu meira sem fasteignafélagi sveitarfélaga sem heldur þá utan um þessi lán og greiðir afborganir en sveitarfélögin haldi þá sjálf utan um viðhald og rekstur. Það er það sem við erum að ræða núna en það er ekki komin niðurstaða. Það gætu verið 2-3 mánuðir í að það liggi fyrir en þá er búið að einfalda félagið og lækka verulega leiguna. Hún myndi þá að stærstum hluta bara taka mið af greiðslu lánanna vegna eignanna. Þá lækkar þessi leigugreiðsla og framreiknuð skuld sveitarfélagsins lækkar. Það þýðir að skuldir sveitarfélagsins lækka verulega. Það er auðvitað kostur, en ef við erum að horfa svona tuttugu ár fram í tímann hefur þetta í raun og veru engin áhrif. Þetta eru sem sagt bara reikningslegar aðferðir.


Hljómahöllin er eitt af stærri verkefnum hér heima í Fasteign, hvernig sérðu hana fyrir þér ef við tökum svona eitt dæmi út úr þessu?

Það er gott að bera Hljómahöllina saman við Hof eða Hörpuna. Það eru ríkisstyrkt verkefni og gríðarlega stór og kostnaðarsöm.Við erum með okkar litla dæmi hér þar sem við lögum til Stapann og tengjum hann saman við tónlistarskóla. Við erum að reyna vinna þetta skynsamlega og búa til úr þessu atvinnutækifæri. Við höfum stoppað framkvæmdir þarna í þessu árferði. Ég vona að við höldum áfram á næsta ári að byggja upp góðan tónlistarskóla. Við erum mjög stolt af honum. Í Hljómahöllinni verður poppsýningin og öll þessi hugmyndafræði, fyrir ráðstefnur og annað. Ég held að það sé mjög gott að sjá núna þegar Hof er komið og Harpan að þá sjá menn hvað þetta er gríðarlega mikil innspýting fyrir okkar litla samfélag með svona skynsamlega byggða einingu. Ég er alveg sannfærður um að þetta er eitthvað sem vantar inn í ferðaþjónustuna og þau tækifæri sem þar eru. Ég finn það líka á hóteleigendum og þeim sem eru í kringum ferðaþjónustu að þeir sjá þessi tækifæri en því miður erum við bara ein að sjá um þetta, ekkert ríki að styðja okkur í því. Við verðum því að vinna þetta í takt við fjárhagsgetu og ég vona að við getum komist áfram um leið og við erum búin að ganga frá þáttum í kringum Fasteign. Þá getum við haldið áfram að ljúka þessu verki.

Mál málanna að undanförnu hafa verið þessi verkefni í atvinnuuppbyggingu sem hafa gengið afar hægt, þau virðast alltaf handan við hornið en einhvern veginn frestast þau alltaf aftur og aftur. Þetta hlýtur nú að taka á taugarnar hjá bæjarstjóranum.


Já, þetta fer inn í hjartað. En þessi mál hafa verið að þokast áfram. Besta dæmið er kísilverið en það er nú svo að hálfum mánuði fyrir undirskrift held ég nú að ríkið hafi vitað afar lítið af þessu verkefni og ráðherrar hennar hafi nú bara mætt hér og tekið góðan þátt í því. Við viljum bara fagna því með þeim en þetta var nú ekki eins og ríkisstjórnin hafi verið að rétta okkur þetta verkefni. Við erum búin að vera í þrjú ár að undirbúa það og það er hluti af því að Helguvík var tilbúin. Þarna var aðstaða sem hægt var að nýta þannig að það gerði málið mögulegt. Forsendurnar voru til staðar og það var búið að byggja upp þessa aðstöðu. En önnur verkefni má nefna eins og gagnaverið. Menn tala um að það sé búið að ljúka því á þingi og það hafi verið gengið frá fjárfestingasamningi en engu að síður er hugmyndafræðin þannig að það eru erlend fyrirtæki sem eiga að koma inn og þau eru ekki sátt við heimilisfesti og ýmsar reglur hjá okkur. Það virðist ekkert vera að ganga þannig að það er enn eitt dæmið þar sem menn segjast vera búnir að ljúka sínu, hvort sem það er Alþingi eða ríkið, alla vega virðist það ekki vera fullnægjandi.




Er sem sagt algjör óvissa með gagnaverið og heyrst hefur af fjárhagsskorti hjá Keili?

Það er algjör óvissa, reyndar segir mér fjármálastjóri Verne Holding að það séu vonir með lítil skref áfram en þau virðast ekki vera í þessum stóra stíl sem verið var að tala um. Einkasjúkrahúsið er annað dæmi. Það er alveg ástæða til að rifja upp hvernig það fór af stað með heilbrigðisráðherra sem sagði bara nei, hann var bara á móti því. Sömu aðilar vildu upphaflega fá aðstöðu hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og voru þá, fyrir tveim árum, tilbúnir með erlenda sjúklinga sem var hægt að koma hér inn. Þetta eru svona gluggar sem opnast en þeir eru ekki endalaust opnir því það eru auðvitað önnur lönd og önnur fyrirtæki sem eru að grípa þessa sjúklinga þannig að mér sýnist að menn hafi augljóslega bara látið þetta fara framhjá sér. Nú er aftur verið að undirbúa verkið og væntanlega í ágúst 2012 á, samkvæmt samningi, húsið að vera tilbúið og þá getur rekstur farið í gang. Vonandi stenst það.

Keilir er enn annað verkefni sem við erum endalaust að biðja um að sitja við sama borð og aðrir í fjárhagsstuðningi ríkis. Það eru fallegar yfirlýsingar um að það eigi að styrkja stöðu menntunar hér á svæðinu og styrkja rekstrargrundvöll menntastofnana en það er ekki verið að leggja til það fjármagn sem er sambærilegt við það sem við sjáum annars staðar. Nú hefur Keilir verið að bíða í hálft ár eftir 80 milljón króna fyrirgreiðslu frá ríkinu og hver vikan, hver mánuðurinn, líður án þess að okkur sé svarað. Þannig er ekki hægt að reka stofnanir og skóla og þá þarf að bregðast við slíkum aðstæðum. Keilir er frábært fyrirtæki sem stendur styrkum fótum vegna stuðnings Háskóla Íslands og einkaaðila. En við bíðum vongóð eftir ríkisframlaginu.


Það er líka rétt að minna á það að ekkert af þessum stóru verkefnum var fjallað um í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í Víkingaheimum nú fyrir tæplega hálfu ári síðan heldur var það samtíningur úr ráðuneytunum. Við fórum yfir þessi verkefni með ríkisstjórninni þegar hún kom hingað í heimsókn og ég var ánægður með það að það komu ekki strax fram mótbárur. Ég hélt þá að með því að þau kæmu hingað, þó þau væru ekki að fjalla um það í þessari þrettán liða yfirlýsingu, að þá væri ríkisstjórnin að segja að hún myndi standa með okkur í þessum stóru atvinnumálum, þessum hundruðum eða þúsundum atvinnutækifæra sem við erum að tala um. En það liðu ekki margir dagar þangað til að ráðherrarnir, sérstaklega Vinstri grænir, fóru að tala hlutina niður. Svo má auðvitað velta fyrir sér hver afraksturinn er af þessum yfirlýsingum. Það voru ýmis falleg orð um Landhelgisgæslu og það voru orð um að rétta af fjárhag skólanna en þar hefur ekkert gerst, tíminn er skólanna, haustið er rétt framundan.
Landhelgisgæslan átti að skila niðurstöðum 1. febrúar en þær hafa ekki enn litið dagsins ljós.


Atvinnuleysi frá því að ríkisstjórnin kom hefur aukist verulega bæði í prósentum og í tölum og ég segi í tölum vegna þess að fólk hefur flutt af svæðinu. Við erum að tala um 14,5% atvinnuleysi á móti 12,7% þegar ríkisstjórnin var hér. Það eru 140 manns sem hafa misst vinnuna á þessum tíma, þar að auki hafa 20 atvinnulausir flutt úr bænum þannig að það er ekki verið að telja þá lengur og 20 hafa komið hér inn á fjárhagsaðstoð Reykjanesbæjar af atvinnuleysisskrá því þeir hafa dottið af atvinnuleysisskrá eftir að hafa verið atvinnulausir svo lengi.




En aðeins aftur að Keili, þetta samfélag sem er orðið á Ásbrú, er þetta ekki mikill kostnaður fyrir Reykjanesbæ?


Jú, þið munið þegar þetta var upphaflega sett af stað að þá var gert ráð fyrir að tekjur ríkisins vegna Ásbrúar væru í kringum 12 milljarðar og það ætti að nota þessa fjármuni til að byggja upp svæðið. Hvar eru þeir? Það er búið að gera ýmislegt á svæðinu í gegnum Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco. Keilir kemur þarna inn, reyndar með fjármagni frá fyrirtækjum, félagasamtökum og sveitarfélögum. Þannig er Keilir byggður upp en hundrað milljónir af á fjórða hundrað milljónum í stofnframlag koma frá ríkinu, hitt kemur frá þessum aðilum. Það er búið að byggja upp frumkvöðlasetrið, það er búið að skapa ákveðna aðstöðu fyrir fyrirtæki þannig að það má ekki gera lítið úr því sem tekist hefur. Það er um margt frábært. En ég hafði mestar áhyggjur af því, og hafði ítrekað sagt, að það stóð aldrei til að það ætti að fara að hirða peninga út úr þessu inn til Reykjavíkur, eins og hefur gerst, inn í ríkissjóð. Svo eigum við að koma með betlistaf og biðja um þetta fjármagn. Það hefur gerst núna á síðustu þremur árum, það byrjaði ekki þannig, það breyttist. Það einfaldlega þýðir að sveitarfélagið, sem var mjög reiðubúið að leggja sitt af mörkum af því að það átti að verða þessi mikla fjárfesting í svæðinu, má segja að hafi verið hlunnfarið. En þar er ekki við Þróunarfélagið að sakast, þetta var ákvörðun Alþingis og ríkisstjórnar að taka þessa peninga inn í ríkissjóð. Núna erum við með samning við Þróunarfélagið um að við fáum greiðslur fyrir þessa uppbyggingu. En það gefur auga leið að einstaklingar sem eru að koma inn á svæðið koma alls staðar að, mikið um einstæða foreldra sem þurfa á þjónustu úr leikskólum og grunnskólum að halda, margvíslegri þjónustu. Það er kostnaður þó við séum ekki að telja hvað kostar á hverju svæði. Það stóð til að þetta væri bætt upp og við höfum ítrekað bent á það og óskað eftir alvöru stuðningi í því en það hefur ekki gerst.


Þannig að þetta er verulegur kostnaður fyrir Reykjanesbæ?

Þetta eru líklega á fjórða hundrað milljónir sem sveitarfélagið hefur verið að fjárfesta og leggja í og ekki er búið að greiða til baka. Það má segja að það sé fjárfesting til lengri tíma en það átti ekki að verða þannig. Það átti að leggja okkur til meiri stuðning. Og þarna koma ekki miklar útsvarstekjur þar sem þarna eru nær eingöngu námsmenn.


Ekki enn, námsmenn eru að búa sig undir að hafa miklar tekjur ef atvinnuverkefnin komast af stað og þá fáum við inn aukið útsvar. En á meðan þau eru sem námsmenn er það meira á kostnað sveitarfélagsins. Það er mikið um foreldra leik- og grunnskólabarna sem eru í námi þarna. Við erum að gefa hópi fólks ný tækifæri sem hafa ekki verið mjög auðveld fyrir fjölskyldufólkið eins og við þekkjum.





Illar tungur í öllum flokkum

-meirihlutinn samhentur og með framtíðarsýn

Aðeins út í bæjarstjórnina og vinnuna þar. Það voru kosningar í fyrra, Sjálfstæðisflokkurinn vann að margra mati óvæntan sigur í ljósi kreppunnar. Hvernig hefur þér sem oddvita gengið að halda utan um nýjan hóp og hvernig hefur bæjarmálavinnan gengið eftir þá miklu endurnýjun?

Það hefur gengið mjög vel, þetta er úrvalsfólk eins og var og það vantar ekkert upp á það. Menn eru bara að vinna sína vinnu og eru komnir vel inn í þessi bæjarmál og skilja vel hvað hefur verið að gerast og hvað þarf að gerast. Við erum mjög samhent og ég held að það hafi hjálpað okkur mikið í þessari baráttu allri að við höfum verið með framtíðarsýn. Við höfum lagt á borðið hvað við viljum gera og hvernig við vildum byggja upp og það hefur skilað sér ágætlega. Í sjálfu sér er líka ágætt samstarf við svokallaðan minnihluta. Gagnrýni minnihlutans finnst mér stundum eiga uppruna utan þessa hóps. Það eru til haukar, illar tungur í öllum flokkum, allt eins í Sjálfstæðisflokknum, Samfylkingu eða Framsókn. Þær narta og stinga og það er spurning hvað bæjarfulltrúarnir þola. Mér hefur almennt sýnst menn þola það ágætlega þannig að í hópnum sjálfum finnst mér menn vera yfirvegaðir og  málefnalegir. Gagnrýnin er eitthvað sem þarf að vera þó stundum finnist manni hún óvægin og ósanngjörn. Svona í grunninn held ég að það sé bara nauðsynlegt að hún komi fram. Í meginatriðum hefur þetta því gengið ágætlega.


Nú ertu búinn að vera með íbúafundi að undanförnu, hvað hefur brunnið svona mest á íbúum að spyrja þig um?

Það eru auðvitað atvinnumálin, bæði hvaða varnir við höfum fyrir þá sem hafa verið að missa vinnuna og eru í atvinnuleit, hvernig hjálpum við þeim og síðan að fara yfir þau verkefni sem eru í gangi. Ég hef á þessum fundum bent á ýmist annað sem er að gerast, t.d. jarðauðlindagarðinn og fiskeldisverkefni úti á Reykjanesi. Erlend fyrirtæki hafa sýnt áhuga á að koma upp fiskeldi í mjög stórum stíl. Við erum að tala um framkvæmdir á um þriðja milljarð sem gætu hafist í sumar eða haust þannig að þarna eru nýjar leiðir sem ég hef verið að kynna fyrir mönnum eins langt og ég þori vegna þess að auðvitað verða þessi fyrirtæki sjálf að fá að kynna hvað þau eru að gera og ákveða tímasetningarnar á því.


Á íbúafundunum hef ég sýnt bæjarbúum að það er von, það er ljós og það eru tækifæri sem við eigum að halda í og líka að sýna hvernig við erum að vinna og undirbúa þau. Svo höfum við haft það þannig að eftir kaffi setjast menn við borðin og ræða málin. Þar hefur Helguvíkin verið vinsæl. Margir hafa viljað sjá hvernig hún er skipulögð, t.d. hvar lóð kísilversins sé og hvernig hún sé hugsuð sem og aðrar lóðir. Við höfum verið að benda á það að við höfum 10-15 lóðir álíka og kísilverslóðina. Reykjanesbær fær hálfan milljarð fyrir eina lóð. Í einfaldri mynd má segja að tíu lóðir greiða upp skuldir hafnarinnar. Þetta mun skila samfélaginu hérna gríðarlegum fjárhæðum og atvinnutækifærum í framtíðinni.


Annað sem íbúar vilja gjarnan ræða eru umhverfismálin í sínu hverfi og ýmsar ábendingar. Mér sýnist Bjarni í þjónustumiðstöðinni og Guðlaugur sem er yfir umhverfis- og skipulagssviðinu hafa haft nóg að gera við að skrá niður ábendingar frá íbúum. Ábendingum hefur reyndar fækkað mjög mikið með árunum, því það er búið að gera ansi margt í umhverfismálum eins og menn þekkja. En það er gott að fá fínar ábendingar en þær eru nú orðnar nákvæmari og það er svolítið gaman að því. Nú eru menn farnir að tala um að hellurnar standist ekki alveg á en hér áður fyrr var verið að tala um að það þyrfti að leggja hellur.



En svo eru líka einhver mál eins og færri ferðir í strætó og svona þjónustuatriði sem brenna á er það ekki?

Það sem kom helst upp og það sem er það erfiðasta fyrir okkur í sparnaði og hagræðingu núna eru samgöngumálin. Því hafa íbúar sérstaklega á Ásbrú og í Innri-Njarðvík fundið fyrir. Við erum að stytta tímann, loka ferðum fyrr og það er ekki góð þjónusta og við þurfum að bregðast við því. Reyndar vissum við alveg hvað við vorum að gera, við vorum að skera niður kostnað en það kemur verr niður á íbúum en við gerðum ráð fyrir og þess vegna þurfum við að fara yfir lausnir í því.

Talandi um vandræði fjölskyldna á svæðinu, Fjölskylduhjálpin segist vera að fæða um 200 fjölskyldur á Suðurnesjum í hverri viku og að stærsti hlutinn komi frá Reykjanesbæ. Hvernig augum líturðu svo á þetta ástand?

Nú höfum við ekki þessar sömu tölur og þau vitna til en við sjáum það bara á fjárhagsaðstoð Reykjanesbæjar og við erum að styrkja hópa fólks og fjölskyldur og vinna með þeim. Við erum að gera það í skólum og við erum alls staðar að veita aðstoð samkvæmt okkar reglum en það er alveg ljóst að sú aðstoð gengur skammt þannig að það er ágætt að hafa stuðning utan að. Mér finnst meira virði að sá stuðningur sé til þess að hjálpa þessum einstaklingum heldur en að vera í mikilli talnaúttekt. Við höfum ekki verið að gefa út slíkar tölur, kirkjan og fleiri aðilar hafa ekki verið að því heldur en þetta er vissulega mikilvæg aðstoð sem þarna er að koma og sannarlega þörf fyrir marga sem eru að njóta hennar.

Hvað segir þú um gagnrýnina sem hefur heyrst í  gegnum þína bæjarstjóratíð að þú værir mjög einráður?

Spurðu bara konuna mína.

Hún er ekki hér í bæjarmálunum. Þú ert með félaga í bæjarmálunum.

Það er bara minna félaga að svara því í sjálfu sér. Ég svara því bara að mér finnst mjög gaman að starfa með fólki og þeir þekkja það hér samstarfsmenn mínir hjá bænum allt eins í bæjarstjórn að ég legg áherslu á samstarf. Ég er hins vegar óþolinmóður og ég vil að hlutirnir gerist og ég kem minni skoðun á framfæri en ég held að þetta sé bara hluti af því að vera mjög merktur pólitískt, áberandi sjálfstæðismaður og nú í kreppunni. Mér finnst við finna fyrir því í fjölmiðlum að það eru ekkert mörg sterk sveitarfélög sem stóðu þetta af sér eins og sjálfstæðismenn gerðu hér í kosningunum í fyrra. Það er því dálítið skotleyfi á okkur og þá er ég ímynd þessa hóps, auðvitað þá gagnrýndur í bak og fyrir og skal bara standa undir því til endaloka.


Það hlýtur að vera erfiðara fyrir þig að vera bæjarstjóri núna en á góðærisárunum þegar allt var í uppsveiflu, menn töluðu um hvað Reykjanesbær væri frábær, þetta eru ekki alveg þessir sömu tímar í dag.

Það er svo langt síðan að maður hefur gert sér grein fyrir sigrum og ósigrum. Ég hef þolað bæði í gegnum tíðina og þess vegna er mjög gott þegar maður naut mikilla sigra að rifja upp að það var ekki alltaf þannig. Þetta skapar ákveðna hógværð og jákvæða hugarstillingu. Alveg á sama hátt núna þegar erfiðlega hefur gengið og ráðist að okkur að þá er oft ágætt að horfa inn í ljósið og sjá að það séu til betri tímar. Maður er þakklátur fyrir þá og ég skal ótrauður koma okkur áfram inn í ljósið. Ég held ég sé í raun og veru bara betri í baráttunni en velmegun. Ég held að maður hafi bara gott af hvoru tveggja og það reynir á. Þetta er þreytandi og þetta slítur menn og ég finn það alveg. Maður þarf bara einhvers staðar að draga andann og eiga gott bakland. Það er gríðarlega mikilvægt og á þessum tíma skiptir meira máli að eiga gott bakland, eiga í okkar hópi félaga sem standa með okkur alla leið.


Þú segist eiga gott bakland í fjölskyldunni, þetta hlýtur nú oft að reyna á?

Ég held að þetta sé ekki alltaf skemmtilegt hlutverk að vera í fjölskyldu stjórnmálamanns og stjórnmálamenn hafa oft meiri áhyggjur af fjölskyldunni sinni en sjálfum sér. Börnin fá t.d. sinn skammt og það er oft miður skemmtilegt. Auðvitað verður maður brynjaður og hlustar ekki á allt þetta nag t.d. frá vissum fjölmiðlum sem eru þekktir fyrir það. Maður er ekkert að láta það pirra sig en þetta síast út með ýmsum hætti og það er kannski oft þannig að börnin manns eru í meiri vörn fyrir mann, heldur en maður sjálfur. Ég segi þeim að þetta sé góð æfing, líta á þetta sem reynslu, lífið er svona. Það eru til jákvæðir hlutir og það eru til neikvæðir hlutir. Það er til gott fólk með góðar meiningar og það er til miður gott fólk með slæmar meiningar. Þetta er vandinn við pólitík því að þú ert merktur í ákveðnum flokki og þetta er bara alveg eins og í íþróttum. Það er bara KR – nei takk – fyrir suma og það er sko sama hver er þar í liði. Þetta smitast á sama hátt inn í pólitíkina, menn hafa tekið ákvörðun um að vera í þessum flokki og þá ber að vera á móti hinum. Svo hamast menn og slást. Slæmt!

Hefurðu orðið fyrir óþægindum? Það hefur jafnvel verið rætt um fjármálin þín í einhverjum fjölmiðlum og á netinu og slíkt.


Við hjónin sendum frá okkur grein í Víkurfréttir fyrir tveimur árum þegar verið var að ata okkur aur og birta veðbókavottorð heimilisins. Það eru alls konar bréf og fullyrðingar sem hafa borist um mig í gegnum tíðina en það er nú auðvelt að svara fyrir. Það er kannski kostur að hafa ekki dottið í það, maður heldur alltaf réttri átt og veit alltaf hvað maður er að gera!






Fékk sparirúntinn í upphafi

Nú eru bráðum tíu ár frá því að þú komst til Reykjanesbæjar og þú fékkst fljúgandi start og það fóru margir hlutir að gerast og fólk tók eftir því. Svona þegar þú horfir til baka þennan tæpa áratug, hvernig finnst þér hafa til tekist og er eitthvað sem þú hefðir vilja gera öðruvísi eða ertu sáttur með stöðuna?


Það er spurning hver er sáttur með stöðu eftir efnahagshrun en í meginatriðum finnst mér hafa verið mjög mikilvægt að kynnast góðu fólki og það að við settum strax fram framtíðarsýn. Hvernig við vildum sjá þetta samfélag, hvernig við vildum styrkja hér innviði í skólamálum, í umhverfinu og hvernig við vildum byggja upp atvinnu. Settum svo niður vegvísa um það. Það hefur verið gríðarlega mikilvægt. Það er í sjálfu sér bara hluti af lífinu að þurfa að verða fyrir vonbrigðum, að lenda í kreppu og erfiðleikum og maður getur ekki búist við því að þetta gangi allt alltaf í réttar áttir. En í meginatriðum hefur það gert það og ég er sannfærður um að við höfum ekki gloprað niður tækifærum okkar. Við höfum verið að byggja upp og allar þessar fjárfestingar munu skila sér þó að það gerist hægar en við ætluðum. Ég trúi því að þrátt fyrir þær hindranir sem við höfum orðið fyrir að þá höfum við komist í gegnum þær og það sé ekki langt í að við getum staðið hér mjög sterk aftur.


Hvernig fannst þér bæjarfélagið vera þegar þú komst hér fyrst. Þegar þú tókst rúnt um bæinn hvað fannst þér þurfa að gera fyrst?

Í fyrsta lagi sá ég í bænum nokkur sveitarfélög og það var augljóst að tvö bæjarfélög, Njarðvík og Keflavík, höfðu byggst upp í ákveðinni samkeppni. Maður sá atvinnustarfsemina á sitt hvorum stað og atvinnulóðir og svæði þannig að við þekkjum hvernig umhverfið tók mið af því. Ég hef nú sagt í gríni að þegar ég kom hér fyrst, þegar verið var að kynna mér sveitarfélagið, í upphafi árs 2002 og verið að velta þessu upp hvort ég vildi taka að mér þetta verkefni ef það byðist, að þá fóru menn greinilega sparirúntinn. Mér var ekið á ákveðna staði og sýnt þannig að þetta leit allt ágætlega út. Engin þörf á umhverfisbótum. Þegar ég kom heim ákvað ég að taka börnin mín og eiginkonu með og aka sjálfur og sýna þeim þetta. Ég villtist og ég ók inn í malargötur án þess að við nefnum nokkur nöfn. Synir mínir tveir í aftursætinu sigu niður og spurðu: „Pabbi, ertu alveg viss um að þetta sé svona spennandi?“ En ég hef grínast við þá sem voru að kynna mér þetta að þeir greinilega vissu hvert átti að fara.
Ég tel að við séum búin að byggja upp samfélag og þó að ég sé nú ekki ímynd jafnaðarstefnunnar tel ég að við höfum náð að byggja upp samfélag sem er að verða mjög jafn gott. Við erum að horfa á alla þætti í umhverfinu og tryggja það að bærinn líti alls staðar vel út. Það þurfti að laga til í ákveðnum póstum. Ég er mjög ánægður með hvernig hefur til tekist, með umhverfisbæturnar og ánægður með þann grunn sem við höfum lagt í atvinnumálin og fjölbreytnina. Við höfum sagt að við ætlum ekki að hafa öll eggin í sömu körfu þannig að það er mjög jákvætt. Við getum líka verið stolt af því hvernig við tókum á þessari hrikalegu breytingu sem varð við það að varnarliðið fór. Sambærilegt og ef 11.000 manns hefðu misst vinnuna í Reykjavík. Ef það hefði gerst hefði einfaldlega verið lýst yfir neyðarástandi. Við  höfum lagt grunn að öllum þessum stóru tækifærum.  Að auki erum við bæði, ég og Bryndís, mjög ánægð með allar aðstæður hér og ég vona að íbúar hafi fundið fyrir þessum breytingum og vona að þeir standi með okkur í að komast út úr þeim vanda sem við glímum við.


Sérðu þig sem bæjarstjóra á næsta kjörtímabili líka?

Ég hef enga ákvörðun tekið um það. Það er auðveldara að hætta þegar vel gengur, alla vega í mínum karakter, þannig að nú er bara kapp lagt á að komast út úr vandanum og ég er ekkert að hugsa um mig eða mína framtíð í öðru ljósi.


Viðtal: Páll Ketilsson.